Ofnbakaður fiskur í parmesan raspi

Mánudagar eru langoftast fiskidagar hjá okkur, það er hefð sem ég held mjög fast í. Yfirleitt elda ég sömu réttina aftur og aftur (þessi lúðupanna er í miklu uppáhaldi) en stundum kemur það fyrir að ég bregð út af vananum og prófa eitthvað nýtt. Þessi fiskur í stökkum parmesan rasphjúp er stórgóður og skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum fisk í raspi. Ekki skemmir fyrir að sleppa við steikingarvesenið þar sem hann er bakaður í ofni. Ég hef gert þennan rétt nokkrum sinnum og notaði þá ýmist þorsk og steinbít og bæði kemur mjög vel út. Borinn fram með góðum kartöflum, ruccola og hvítlaukssósu varð þessi fiskur að algjörri veislumáltíð sem fiskunnendur mega ekki láta fram hjá sér fara.

Ofnbakaður fiskur í stökkum parmesan rasphjúp:

  • 600 g hvítur fiskur, skorinn í passlega bita
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk kjöt&grillkrydd
  • 1 tsk sítrónupipar
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk svartur pipar
  • 2 egg, upphrærð
  • 1 bolli Panko brauðrasp
  • 1/2 bolli hveiti
  • 1/2 bolli ferskrifinn parmesan ostur
  • 1 msk ólífuolía
  • PAM sprey
  • Sítrónur, skornar í báta (má sleppa)
  • Smátt söxuð steinselja (má sleppa)

Hitið ofninn í 200°. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír og spreyið með smá PAM. Skolið og þurrkið fiskbitana. Blandið kryddunum saman í lítilli skál og notið helminginn til þess að krydda fiskinn. Hrærið saman panko brauðraspi og 1 msk af ólífuolíu. Bætið ferskrifnum parmesan og restinni af kryddblöndunni saman við. Veltið fiskbitunum upp úr hveiti, síðan upphrærðum eggjum og endið á parmesanraspblöndunni. Raðið fiskbitunum á ofnplötuna og spreyið aðeins yfir þá með smá PAM. Bakið í 10-15 mínútur og stráið smátt saxaðri steinselju yfir fiskinn þegar hann er tilbúinn. Berið fram með sítrónubátum og því meðlæti sem hugurinn girnist.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir