Salisbury steik í sveppasósu

Þegar ég bjó í Bandaríkjunum var oft Salisbury steik í matinn í mötuneytinu í skólanum og mér fannst hún alveg þrælgóð en prófaði aldrei að elda hana heima því ég hafði lítinn tíma til þess, yfirleitt borðaði ég bara í skólanum. Eftir að ég kom heim eldaði ég Salisbury steik frá grunni og hún var auðvitað milljón sinnum betri heldur en þessi í skólanum og hefur verið elduð oft síðan, alltaf við mikla lukku. Ég mæli eindregið með að þið prófið. Góð kartöflumús og rifsberjahlaup setja svo punktinn yfir i-ið i frábærri máltíð.

Salisbury steik:

 • 900 g nautahakk
 • 1/2 bolli panko
 • 1 msk sætt sinnep
 • 1 msk tómatsósa
 • 2 msk Worcestershire sósa
 • 1 egg
 • 1 pakki púrrulaukssúpa frá Toro

Blandið öllum hráefnunum saman og mótið 6 hakkabuff. Steikið upp úr smjöri eða smjörlíki á háum hita í 2-3 mínútur á hverri hlið. Takið af pönnunni og setjið til hliðar.

Sveppasósa:

 • 450 g sveppir, sneiddir
 • 1 laukur, sneiddur
 • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 450 ml nautasoð
 • 2 dl rjómi
 • 2 msk kornsterkja
 • 2 msk Dijon sinnep
 • 2 msk rifsberjahlaup
 • 2 msk Worcestershire sósa
 • 1 bréf Viltsaus frá Toro
 • Salt og pipar

Setjið smá smjör á pönnuna sem buffin voru steikt á. Þegar smjörið er byrjað að bubbla er lauknum og sveppunum bætt á pönnuna. Steikið í 3 mínútur og bætið þá hökkuðum hvítlauk saman við. Blandið vel saman og látið steikjast í 1 mínútu. Bætið næst bréfi af Viltsaus á pönnuna og blandið vel saman við sveppina og laukinn. Bætið nautasoði, rjóma og kornsterkju á pönnuna. Hærið mjög vel í þessu svo kornsterkjan fari ekki í kekki. Þegar sósan er orðin slétt er Worcestershire sósu, Dijon sinnepi, nautatening og rifsberjahlaupi bætt á pönnuna. Þegar nautateningurinn er bráðnaður er buffunum bætt á pönnuna og látin malla í sósunni í 15-20 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Berið fram með kartöflumús og sultu.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir