Pasta með rjómaosti, hráskinku og ruccola

Þessi pastaréttur varð til þegar ég lét mér detta í hug að nota rjómaost með karamellíseruðum lauk í pastarétt. Ég hafði aldrei notað þennan ost áður og var því í djúpum þönkum um hvað fleira ég ætti að setja í pastaréttinn. Á endanum var niðurstaðan sú að setja nautasoð, sveppatening, rjóma, mikið af nýmuldum svörtum pipar, sveppi, lauk, hráskinku og ruccola í réttinn. Útkoman var æðisleg og við ætluðum ekki að geta hætt að borða. Þetta er ekta helgarmatur sem er upplagt að bera fram með hvítlauksbrauði og góðu víni.

Pasta með rjómaosti, hráskinku og ruccola:

  • 380 g spaghettí
  • 2 laukar, skornir í þunna báta
  • 1 box sveppir, sneiddir
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • Hráskinka eftir smekk
  • 1 poki ruccola
  • 1/2 sveppateningur
  • 1.5 dl nautasoð
  • 3 dl rjómi
  • 1 askja rjómaostur með karamellíseruðum lauk
  • 2 tsk nýmulinn svartur pipr
  • 1 handfylli fersk steinselja, fínhökkuð
  • Safi af 1/2 sítrónu
  • Smjör til steikingar

Steikið sveppi upp úr smjöri á miðlungsháum hita í 5-7 mínútur. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið lauk upp úr smjöri á sömu pönnu þar til hann er orðinn fallega brúnn. Bætið hvítlauk á pönnuna og steikið áfram í 2 mínútur. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið hráskinku á báðum hliðum í smástund, eða þangað til stökkt eftir smekk. Setjið til hliðar. Setjið nautasoð, sveppatening, rjóma og rjómaost með karamelluseruðum lauk á pönnuna og látið rjómaostinn bráðna. Bætið 2 tsk af nýmuldum svörtum pipar og steinselju á pönnuna. Þegar osturinn er alveg bráðnaður og sósan orðin slétt er grænmetinu bætt aftur á pönnuna. Látið malla á vægum hita á meðan spaghettí er soðið upp úr brimsöltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar spaghettíið er tilbúið er það veitt með töng upp úr pottinum og yfir á pönnuna. Bætið smá pastavatni á pönnuna ef ykkur finnst þurfa. Blandið öllu vel saman. Bætið hráskinku, ruccola og sítrónusafa saman við og látið allt malla saman í 1 mínútu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir