Flestir kannast eflaust við aðferðina að setja Royal súkkulaðibúðingsduft og bökunarkakó saman við djöflatertumix til þess að fá meira súkkulaðibragð af kökunni. Það hef ég margoft gert og er alltaf jafn ánægð með útkomuna. Þess vegna kom eiginlega ekki annað til greina en að prófa eitthvað svipað með vanillukökumixi. Ég bætti Royal karamellubúðing, sýrðum rjóma og möndludropum saman við og útkoman var æðisleg. Ég bjó til saltkaramellu-kaffismjörkrem og breiddi yfir kökuna og hún varð gjörsamlega ómótstæðileg.
Karamellukaka:
- 1 kassi vanillukökuduft (ég notaði frá Lindu Ben)
- 3 egg
- 1.25 dl brætt smjör
- 2 dl vatn
- Royal karamellubúðingsduft
- 1 tsk möndludropar
- 1.25 dl sýrður rjómi
Hitið ofn í 175°. Klæðið skúffukökuform með bökunarpappír. Blandið öllum hráefnunum vel saman og hellið í skúffukökuformið. Bakið í 25-30 mínútur. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á.
Saltkaramellu-kaffi smjörkrem:
- 130 g smjör
- 100 g saltkaramellusósa
- 70 g rjómaostur
- 500 g flórsykur
- 2 msk kaffi
- 1 msk rjómi
- 1 tsk sjávarsalt
Þeytið smjör á háum hraða í 5 mínútur. Bætið rjómaosti saman við og þeytið í 2-3 mínútur til viðbótar. Setjið saltkaramelluna saman við smjörblönduna og þeytið í 3 mínútur. Bætið flórsykrinum saman við blönduna í smáum skömmtum og þeytið vel á milli. Bætið rjóma, kaffi og salti saman við og þeytið kremið áfram í nokkrar mínútur. Breiðið kremið yfir kökuna. Skreytið með jarðaberjum og saltkaramellusósu sé þess óskað.



*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay