Þristakaka með saltkaramellu þristakremi

Um páskana gerði ég svo dásamlega súkkulaðiköku með þristum og þristasaltkremi að orð hreinlega fá henni ekki lýst. Hún er lungamjúk, blaut í sér, með þristabitum og silkimjúku kremi úr þristum og saltkaramellu. Þessa köku má enginn súkkulaðiunnandi láta fram hjá sér fara, því hún er bara svo dásamlega góð.

Þristakaka:

  • 200 g suðusúkkulaði
  • 150 g smjör
  • 175 g púðursykur
  • 4 egg
  • 1 tsk salt
  • 5 msk hveiti
  • 1 poki þristar, skornir í sneiðar

Hitið ofninn í 180°. Bræðið suðusúkkulaðið og smjörið saman í potti. Hrærið saman eggjum og púðursykri í skál með gaffli (ekki þeyta deigið á neinum tímapunkti). Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og púðursykurinn. Bætið salti og hveiti saman við og hrærið vel saman. Bætið þristunum saman við deigið og blandið vel. Setjið bökunarpappír í botninn á 20 cm móti og smyrjið mótið að innan. Hellið deiginu í formið og bakið í 45 mínútur. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á.

Saltkaramelluþristakrem:

  • 50 g smjör
  • 50 g smjörlíki
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 5 litlir þristar
  • 2 msk saltkaramella (heimatilbúin eða keypt, ég notaði frá Skúbb)
  • 2 msk síróp
  • 2 msk rjómi
  • 2 dl flórsykur

Þeytið smjör og smjörlíki saman á háum hraða í 7 mínútur. Bræðið suðusúkkulaði, þrista, síróp og rjóma saman yfir vatnsbaði og látið kólna aðeins. Setjið 2 msk af saltkaramellu saman við smjörið og þeytið áfram í nokkrar mínútur. Bætið þristablöndunni varlega út í og þeytið áfram um dágóða stund. Bætið að lokum flórsykrinum saman við í smáum skömmtum og þeytið vel á milli. Þeytið kremið að lokum í 8 mínútur eða þangað til það er orðið alveg slétt og silkimjúkt. Setjið kremið yfir kökuna og skreytið að vild.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir