Quesadillas með pulled pork

Ég var svo heppin að fá osta að gjöf frá Gott í matinn og fór auðvitað um leið að velta fyrir mér hvað ég gæti föndrað sniðugt úr þeim. Ein hugmyndin sem ég fékk voru quesadillas með hægelduðu svínakjöti og einhverjum góðum ostum. Eldamennskan er tiltölulega einföld og vinnuframlagið lítið en það þarf að gera ráð fyrir 10 klukkustundum í hægeldaða svínakjötið, en að því loknu tekur enga stund að setja quesadillurnar saman og græja meðlæti. Ef það er ekki tími til þess að elda kjötið yfir daginn er tilvalið að elda kjötið yfir nótt, þar sem það þarf ekkert að snúa því við eða gera neitt við það, tíminn sér bara um kjötið í ofninum.

Ég var með miklar væntingar þegar við settumst við matarborðið og varð heldur betur ekki fyrir vonbrigðum. Quesadillurnar eru með þeim betri sem ég hef smakkað og meðlætið sem ég útbjó fór stórvel með. Ég bar þær fram með smátt söxuðum rauðlauk, saxaðri steinselju, quesadilla sósu, salati og muldu Doritos. Þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna á heimilinu!

Quesadillas með pulled pork, rjómaosti og cheddar osti:

  • 900 g svínahnakki í sneiðum
  • 1 bréf Taco krydd
  • Smjör til steikingar
  • 1 laukur, skorinn í báta
  • 3 dl BBQ sósa

Önnur hráefni:

  • Rjómaostur frá Gott í matinn
  • Rifinn cheddarostur frá Gott í matinn
  • 8 tortillur (minni gerðin)
  • Rauðlaukur, fínhakkaður
  • Steinselja, smátt söxuð
  • Tortilla flögur, muldar (ég notaði svart Doritos)

Hitið ofn í 110°. Nuddið grísahnakkann með taco kryddi og steikið á pönnu upp úr smjöri á háum hita þangað til kjötið er komið með fallega steikingarhúð. Raðið sneiðunum í eldfast mót, raðið lauk yfir og endið á að setja BBQ sósu yfir allt. Setjið álpappír yfir mótið og eldið í ofni í 10 klukkutíma.

Quesadilla sósa (lítillega breytt uppskrift frá Key To My Lime):

  • 3/4 bolli majónes
  • 1/4 bolli sýrður rjómi
  • 3 msk jalapeno úr krukku, fínhakkað
  • 3 msk jalapeno safi
  • 2 tsk papriku krydd
  • 2 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 2 tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk chili duft
  • 1/2 tsk salt

Blandið öllu vel saman og geymið í ísskáp þar til borið fram. Þegar kjötið er tilbúið er það tætt í sundur með tveim göfflum og látið kólna þar til hægt er að vinna með það. Smyrjið tortilla kökur með rjómaosti, setjið pulled pork á annan helming kökunnar og cheddarost yfir kjötið. Brjótið hinn helminginn yfir kjötið og ostinn þannig að úr verði hálfmáni. Hitið bragðdaufa olíu á pönnu og steikið quesadillurnar á báðum hliðum þar til þær hafa fengið fallegan lit og osturinn er bráðnaður. Berið fram með Taco Bell sósunni, rauðlauk, steinselju, muldum tortilla flögum og salati.

    deila uppskrift:

    Facebook
    Twitter
    Pinterest

    Fleiri uppskriftir