Humarrúllur með beikoni og chili majó

Þegar ég bjó í Boston, þá hreinlega lifði ég á humar rúllum eða lobster rolls, sem eru hálfgert humarsalat sem er sett í ristað pylsubrauð og borið fram með frönskum kartöflum og heimagerðu hrásalati. Í Boston er hægt að fá þennan signature rétt á flestum veitingastöðum en ég hef ekki séð neitt í líkingu við þær á matseðlum veitingastaða á Íslandi svo það var þá ekki annað í stöðunni en að græja þetta bara heima. Ég ákvað að nota chili majó í stað venjulegs majóness og bæta við stökku beikoni og graslauk. Útkoman var alveg klikkgóð og verður klárlega á borðum hér með reglulegu millibili.

Humarrúllur með beikoni og chili majó (þessi uppskrift miðar við tvær rúllur):

  • 300 g skelflettur humar
  • 4 sneiðar beikon
  • Chili majó eftir smekk
  • Lítið handfylli smátt saxaður graslaukur
  • Nýmulinn svartur pipar
  • Paprikuduft
  • 2 pylsubrauð
  • Smjör

Steikið beikonið á háum hita á pönnu þar til mátulega stökkt. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið humarinn á sömu pönnu upp úr beikonfitunni þangað til hann er eldaður í gegn. Kryddið hann lítillega með nýmuldum svörtum pipar. Hakkið beikonið og blandið saman við humarinn, ásamt graslauk og chili majó eftir smekk. Látið standa í ísskáp í a.m.k 30 mínútur (ég læt þetta oft standa í ísskáp yfir heilan dag og það er bara betra). Hitið ofn í 200° og klæðið ofnplötu með bökunarpappír. Smyrjið pylsubrauðin að innan og utan með smjöri og látið brauðin á ofnplötuna þannig að innvols brauðanna snúi niður. Hitið í ofni þar til brauðin eru orðin fallega gyllt á litinn og stökk. Raðið humarsalatinu í pylsubrauðin og stráið smá graslauk og paprikudufti yfir. Berið fram með frönskum og njótið í botn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir