Kjöthleifur borinn fram með kartöflumús, rjómasósu og sultu er í miklu uppáhaldi hjá okkur, enda er slík máltíð alveg sérlega notaleg. Þennan kjöthleif setti ég saman úr því sem ég átti til í ísskápnum og útkoman var besti kjöthleifur sem við höfum smakkað. Sambýlingurinn sagðist gefa honum 10 í einkunn og sagði kjöthleifinn „hættulega góðan“. Við borðuðum á okkur gat og hlökkuðum til að borða afganginn deginum eftir. Kjöthleifinn bar ég fram með kartöflumús, rifsberjahlaupi og þessari sósu sem ég ber alltaf fram með kjötbollum, hakkabuffum og kjöthleifum enda er hún í ruglinu góð. Ég er búin að fullkomna hana eins og okkur finnst hún best og ætla að birta hana hér að neðan. Þið bara verðið að prófa þennan kjöthleif og hafa þessa dásamlegu sósu með!
Beikonvafinn kjöthleifur með worcestershire-tómatsósugljáa:
- 1 kg nautahakk
- 1/2 rauðlaukur, fínhakkaður
- 1/2 græn paprika, fínhökkuð
- 1 1/2 dl brauðmylsna (ég setti eina sneið af heimilisbrauði í matvinnsluvél)
- 1 dl tómatsósa
- 1 dl ferskrifinn parmesan ostur (vel þjappað)
- 1 egg
- 1 msk Worcestershire sósa
- 1 msk hvítlauksduft
- Salt og pipar
- 8-10 sneiðar beikon (eða eins og þarf til þess að hylja allan hleifinn)
- 5 msk tómatsósa
- 1 msk Worcestershire sósa
Hitið ofn í 200°. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír eða smyrjið eldfast mót. Blandið saman nautahakki, papriku, rauðlauk, brauðmylsnu, eggi, parmesan osti, 1 dl af tómatsósu, 1 msk af worcestershire sósu, hvítlauksdufti, salti og pipar vel saman. Mótið hleif úr hakkblöndunni ofan á ofnplötunni eða í eldfasta mótinu. Blandið saman 5 msk af tómatsósu og 1 msk af Worcestershire sósu og penslið hleifinn með rúmlega helmingnum af blöndunni. Vefjið beikonsneiðum utan um hleifinn. Eldið í ofni í ca. 30 mínútur, takið þá hleifinn út og penslið hann með restinni af tómatsósublöndunni. Eldið í 10 mínútur til viðbótar. Látið kjöthleifinn standa í smástund áður en hann er skorinn.
Rjómasósa:
- 1 dós sýrður rjómi
- 2.5 dl rjómi
- 3 msk rifsberjahlaup
- 2 1/2 msk sojasósa
- 2 kjúklingateningar
- 1/2 tsk hvítur pipar
- Maizena til að þykkja
Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Þykkið með maizena.



