Kung Pao kjúklinga spaghettí

Ég er mjög hrifin af öllum asískum mat og Kung Pao er einn af mínum uppáhalds réttum, ég panta hann nánast undantekningarlaust þegar ég fer á kínverska veitingastaði og hef oft eldað hann í eldhúsinu mínu. Því er ekki að undra að ég rak upp stór augu þegar ég sá uppskrift af Kung Pao kjúklingaspaghettí. Ég elska Kung Pao og ég elska spaghettí… hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis? Ég eldaði svo réttinn fyrir skömmu og hann sló rækilega í gegn á heimilinu og mér sagt að uppskriftin yrði að fara beinustu leið á bloggið. Hér kemur því uppskriftin og ég vona að sem flestir prófi, því rétturinn er æðislega góður og virkilega gaman að elda hann. Ekta helgarmatur.

Kung Pao kjúklinga spaghettí (lítillega breytt uppskrift frá Sabrina Snyder):

  • 1 bolli grænmetissoð
  • 2 msk kornsterkja
  • 3/4 bolli sojasósa
  • 1/2 bolli sérrí
  • 3 msk sambal oelek
  • 1/4 bolli sykur
  • 2 msk rauðvínsedik
  • 3 msk sesam olía
  • 2 eggjahvítur
  • 2 msk kornsterkja
  • 1/2 tsk salt
  • 450 g spaghettí
  • 1/4 bolli ólífuolía
  • 600 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 15 stk þurrkaður kínverskur chili pipar
  • 1 bolli salthnetur
  • 1/4 bolli hvítlaukur, fínhakkaður
  • 3 bollar vorlaukur, sneiddir

Setjið grænmetissoð í pott, ásamt 2 msk af kornsterkju og hrærið stöðugt í þar til kornsterkjan leysist upp. Bætið sojasósu, serríi, sambal olelek, sykri, rauðvínsediki og sesamolíu í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í 20 mínútur. Sjóðið spaghettíið í söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hrærið saman eggjahvítu, kornsterkju og salti og blandið kjúklingnum saman við. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið kjúklinginn á pönnunni í þunnu lagi eins og þegar eggjakaka er steikt. Þegar eggjahvíturnar eru eldaðar í gegn er kjúklingnum snúið við og steiktur áfram í nokkrar mínútur. Notið steikingarspaða til þess að brjóta bitana í sundur. Bætið hvítlauk og vorlauk á pönnuna og steikið í eina mínútu. Hellið sósunni á pönnuna og blandið öllu vel saman. Bætið spaghettíinu, chili pipar og salthnetum á pönnuna og blandið vel saman. Berið strax fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir