Tælenskur massaman kjúklingur

Ég hef alltaf haldið mikið uppá tælenskan mat og elda hann með reglulegu millibili. Kjúklingur í massaman er einn af mínum uppáhalds réttum, bæði því hann er sérlega bragðgóður og gaman að elda hann. Ég man ekki hvar ég fékk þessa uppskrift á sínum tíma en ég er búin að breyta henni mjög mikið í gegnum árin, bæði hráefnum og hlutföllum. Berið fram með hrísgrjónum, lime, grófhökkuðum salthnetum og ferskri basiliku eða kóríander. Rétturinn er mjög bragðmikill og ansi sterkur, svo ég mæli ekki með því að sleppa ananasnum í honum. Ef þér finnst áferðin á ananas alveg ómöguleg, þá mæli ég með því að þú notir ananassafa eða jafnvel ananaskurl, því það kemur svo gott bragð frá safanum. Þessi réttur ætti að hitta í mark hjá öllum sem eru hrifnir af tælenskum mat.

Tælenskur kjúklingur í massaman curry:

  • 900 g kjúklingabringur, sneiddar mjög þunnt
  • 1 gulur laukur, sneiddur þunnt
  • 1 lítil dós ananas, safinn líka (má sleppa)
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 3 msk púðursykur
  • 3 msk fiskisósa
  • 1 msk Worcestershire sósa
  • Safi af einu lime
  • 120 ml Massaman curry paste
  • Nokkrar msk bragðlaus olía (ekki ólífuolía)
  • 2 msk hakkað ferskt kóríander eða basilika + meira til að setja yfir réttinn
  • 1 tsk engiferduft
  • 6 kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
  • 1⁄2 bolli salthnetur, grófhakkaðar + meira til að setja yfir réttinn
  • 4 msk hnetusmjör
  • Sriracha sósa eftir smekk (ég set ca. 1 msk, byrjið með 1 tsk og smakkið ykkur áfram)
  • Rauðar piparflögur eftir smekk

Hitið olíu í rúmgóðum potti eða pönnu og steikið massaman curry paste þangað til það byrja að dökkna aðeins. Bætið einni dós af kókosmjólk saman við og blandið vel saman. Setjið fiskisósu, púðursykur, Worcestershire sósu, lime safa, kóríander/basiliku, hnetusmjör og engifer saman við og látið suðuna koma upp. Bætið næst kjúklingnum og lauknum á pönnuna og lækkið hitann aðeins. Látið sjóða saman í 5 mínútur (eða þar til kjúklingurinn er hvítur og gegneldaður) og bætið þá hinni kókosmjólkurdósinni saman við og látið suðuna koma upp. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið öllu vel saman. Látið sjóða á vægum hita í ca. 15 mínútur (ég læt þetta oft malla aðeins lengur). Berið fram með hrísgrjónum, lime, grófhökkuðum salthnetum og ferskri basiliku eða kóríander.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir