Ungverskt nautagúllas

Þegar við fórum til Búdapest í fyrra fékk ég svo brjálæðislega gott nautagúllas að það átti hug minn allan það sem eftir var af ferðinni. Þegar við komum heim fór ég fljótt í að finna uppskrift til þess að prófa í eldhúsinu mínu og eftir langa leit fann ég loksins uppskrift sem mér leist nógu vel á. Það var algjörlega ómaksins virði þegar við settumst við borðið og smökkuðum gúllasið, það var nánast alveg eins og það sem ég fékk í Búdapest. Svakalega matmikið og bragðgott og dugði okkur í tvær máltíðir. Ég man því miður ekki hvaðan uppskriftin kemur en ég á ekkert í henni og man ekki til þess að hafa gert neinar breytingar af ráði. Ég mæli eindregið með að bera gúllasið fram með góðri kartöflumús og rauðvíni, þá verður máltíðin einstaklega notaleg.

Ungverskt nautagúllas:

 • 1.1 kg nautakjöt, skorið í bita
 • 2 tsk salt
 • 1 bolli laukur, skorinn í teninga
 • 3 bollar gulrætur, skornar í sneiðar
 • 450 g sveppir, sneiddir
 • 4 tsk fínsaxaður hvítlaukur
 • ½ bolli hveiti
 • 1 dós tómatar (ég notaði kirsuberjatómata)
 • 900 ml nautasoð
 • 1 tsk nýmulinn svartur pipar
 • 3 msk papriku krydd
 • 1 tsk þurrkað oregano
 • 2 tsk cumin
 • 2 nautateningar
 • 2 msk hvítvíns- eða rauðvínsedik
 • Hökkuð steinselja

Hitið ofninn í 160°. Takið til ofnþolinn pott (með loki) og hitið olíu í honum á miðlungsháum hita. Brúnið nautakjötið á öllum hliðum í þrem skömmtum. Þegar allt kjötið er brúnað, setjið það þá allt aftur í pottinn, ásamt lauk, sveppum, gulrótum, hvítlauk, salti , hvítvínsediki og pipar. Blandið öllu vel saman, setjið lokið á pottinn og leyfið öllu að „svitna“ saman í ca. fimm mínútur. Takið þá lokið af pottinum og látið allt steikjast saman í 15 mínútur til viðbótar. Setjið næst papriku, cumin, oregano, nautateninga og hveiti í pottinn og hrærið öllu vel saman. Bætið næst tómötum og nauðasoði í pottinn og látið suðuna koma upp. Setjið lokið á pottinn og færið hann í ofninn. Eldið í ca. 2 og ½ klukkustund. Stráið hakkaðri steinselju yfir réttinn rétt áður en hann er borinn fram. Berið fram með kartöflumús og njótið í botn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir