Beikonvafin jalapeno popper pylsubrauð

Þessi beikonvöfðu jalapeno popper pylsubrauð eru alveg gjörsamlega í ruglinu góð. Hugmyndina fékk ég þegar ég sá reel á Instagram þar sem geitaosti var smurt inn í fræhreinsuð jalapeno og beikoni vafið utan um þau. Ég er ekki sérlega hrifin af geitaosti og var hrifnari af hugmyndinni um að gera þetta aðeins matmeira og datt því í hug að setja fyllingu í pylsubrauð og vefja beikoni utanum og baka í ofni. Útkoman var klikkgóð og ég get ekki mælt nógu mikið með þessu. Þessi pylsubrauð henta vel sem léttur kvöldverður sem og sjónvarpssnarl. Þessi uppskrift miðar við fyllingu sem passar í 4 pylsubrauð en það er um að gera að setja bara það magn af osti, chili og sultu sem ykkur þykir gott. Þið bara verðið að prófa!

Beikonvafin jalapeno popper pylsubrauð:

  • 4 pylsubrauð
  • 1/2 dós beikonsmurostur
  • 2 handfylli rifinn cheddarostur
  • 1 grænt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • Four Fruit sulta frá St Dalfour
  • 8 beikonsneiðar
  • Nýmulinn svartur pipar eftir smekk

Hitið ofn í 220°. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Hærið saman beikonsmurosti, hökkuðu chili og rifnum cheddarosti. Smyrjið brauðin að innan með ostablöndunni og setjið sultu eftir smekk yfir ostablönduna. Lokið brauðunum mjög vel og vefjið þau með beikoni. Kryddið með nýmuldum svörtum pipar. Setjið í ofn í 10 mínútur, eða þar til beikonið er stökkt og osturinn farinn að leka aðeins úr brauðunum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir