Hægeldaðar svínakótilettur í sveppasósu

Ég er mjög hrifin af öllum hægelduðum mat. Bæði af því slíkir réttir eru alltaf svo góðir og svo er eitthvað einstaklega notalegt við mat sem tekur stuttan tíma að útbúa og sér svo bara um sig sjálfur í ofninum. Húsið fyllist af góðri lykt og þegar líður að matartíma þarf ekki að gera annað en að leggja á borð og útbúa meðlæti. Þessar hægelduðu svínakótilettur eru frábær sunnudagsmatur sem er tilvalið að njóta með góðu víni og kertaljósum. Einfalt og stórgott.

Hægeldaðar svínakótilettur í sveppasósu:

 • 5-6 svínakótilettur
 • 1 laukur
 • 1 box sveppir
 • Salt og pipar
 • Hvítur pipar
 • Hvítlauksduft
 • Kjöt&grillkrydd
 • Smjör til steikingar
 • 1 nautateningur
 • 250 ml nautasoð
 • 1 dós Campbell’s sveppasúpa
 • 1 dós Campbell’s kjúklingasúpa
 • 1 dl rjómi
 • 1 msk Dijon sinnep
 • 2.5 msk sojasósa
 • 1-2 msk rifsberjahlaup

Hitið ofninn í 130°. Skerið laukinn í þunna báta og sveppina í sneiðar. Setjið þetta í botninn á ofnpotti (eða eldföstu móti ef þið eigið ekki ofnpott, setjið þá álpappír yfir fyrir eldun). Nuddið kryddinu vel á allar hliðar á svínakótilettunum og steikið upp úr smjöri á háum hita þangað til kjötið hefur fengið dökka og fallega steikingarhúð – alls ekki þrífa pönnuna. Setjið kjötið yfir sveppina og laukinn. Bætið nautasoði og nautatening á pönnuna. Þegar teningurinn er byrjaður að bráðna, nætið þá súpum, Dijon sinnepi, rjóma, sojasósu og rifsberjahlaupi á pönnuna og látið malla saman um stund. Smakkið til með Dijon sinnepi, sojasósu og rifsberjahlaupi. Hellið sósunni yfir kjötið, setjið lok á og eldið í 7-8 klukkustundir. Að lokinni eldun er kjötið fært yfir á disk og sósan (ásamt sveppunum og lauknum) hellt yfir í pott og suðan látin koma upp. Þynnið sósuna með rjóma ef ykkur finnst þurfa eða þykkið með maizena ef hún er of þunn. Berið fram með góðri kartöflumús.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir