Bragðmikil tælensk hrísgrjón

Í síðustu viku birti ég mynd í stories á Instagram af fiski og tælenskum hrísgrjónum sem var í matinn hjá okkur það kvöldið og fékk nokkrar fyrirspurnir um hvort og hvenær þessar uppskriftir kæmu inn á bloggið. Hér kemur uppskriftin, og ekki seinna vænna, því þessi hrísgrjón eru algjört æði og gera allar máltíðir betri. Ég hef að mestu notað hana með fisk og kjúkling, og bæði kemur vel út. Einnig eru þau góð ein og sér og þá er um að gera að bæta grænmeti og/eða kjöti saman við þau eftir smekk. Þau eru mjög góð deginum eftir og duga því vel sem meðlæti með tveimur máltíðum.

Tælensk hrísgrjón (töluvert breytt uppskrift frá The Spruce Eats):

  • 2 msk bragðdauf olía
  • 1⁄4 bolli fínhakkaður laukur
  • 4 hvítlauksgeirar, fínhakkaðir
  • 1 tsk rauðar chiliflögur
  • 1⁄2 msk tómatpúrra
  • 1/3 bolli gulrætur, skornar í litla teninga
  • 2 bollar hrísgrjón
  • 4 bollar kjúklinga- eða grænmetissoð
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 msk sojasósa
  • 1 msk fiskisósa
  • 1 tsk túrmerik
  • 1/3 bolli frosnar grænar baunir
  • Salt eftir smekk

Hitið olíuna í rúmgóðum potti á miðlungsháum hita. Þegar olían er orðin mjög heit er lauknum, hvítlauknum og chili flögum bætt út í og steikt saman í 2 mínútur. Bætið gulrótunum og tómatpúrrunni á pönnuna og steikið saman í 1 mínútu. Setjið hrísgrjónin í pottinn og blandið öllu mjög vel saman. Setjið kjúklinga/grænmetssoðið í pottinn og hækkið hitann á hellunni. Bætið sojsaósu, fiskisósu, kjúklingatening og túrmerik í pottinn og blandið vel saman. Þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður í lágan og lok sett á pottinn. Látið sjóða í 15-20 mínútur eða þar til allur vökvi er horfinn. Takið lokið af pottinum og blandið grænu baununum varlega saman við grjónin. Setjið lokinn aftur á pottinn, slökkvið undir honum og látið standa í 10 mínútur.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir