Við elskum fisk á þessu heimili og við borðum hann helst nokkrum sinnum í viku. Þar sem ég er óþarflega vanaföst með fiskrétti er ég alltaf með augun opin fyrir skemmtilegum uppskriftum til þess að krydda aðeins upp hversdagsleikannn. Þegar ég sá þessa uppskrift af ofnbökuðum þorsk í karríkókossósu á Pinterest varð ég strax áhugasöm og setti þorskinn á matseðil næstu viku. Mér fannst hann síðan ekkert spes en punktaði hjá mér því sem ég taldi að þyrfti að breyta til þess að rétturinn yrði dásamlega góður og eldaði réttinn aftur skömmu seinna. Breytingarnar mínar hittu alveg í mark og okkur þótti rétturinn svo góður að við hættum ekki að borða fyrr en fiskurinn var búinn. Herlegheitin bar ég fram með tælenskum hrísgrjónum sem fullkomuðu veisluna.
Þorskur í karríkókossósu:
- 600 g þorskur, skorinn í passlega bita
- 1 rauð paprika, skorin í strimla
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk svartur pipar
- 1 kjúklingateningur
- 1 dós létt kókósmjólk
- 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 msk rifið engifer
- 2 msk rautt curry paste
- 1 msk sojasósa
- 1/2 msk tómatpúrra
- 1 tsk sykur
- 1 msk fiskisósa
Hitið ofninn í 200°. Smyrjið eldfast mót og raðið þorskinum í botninn á því. Kryddið með salti og pipar. Raðið paprikunni jafnt yfir þorskinn. Setjið kjúklingatening, kókósmjólk, hvítlauk, engifer, curry paste, sojasósu, tómatpúrru, 1 tsk sykur og 1 msk fiskisósu saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna malla þangað til kjúklingateningurinn er bráðnaður. Hellið sósunni yfir fiskinn og eldið í ofni í 25-35 mínútur.