Kartöflumús með parmesan, hvítlauk og rjómaosti

Ég elska kartöflumús með flestum mat og gæti svo gott sem lifað á henni. Ég er mjög vanaföst með kartöflumúsina sem ég ber fram með kjötbollum sem samanstendur af kartöflum, rjóma/mjólk, smjöri, salti, sykri og hvítum pipar og fæ ekki leið á henni. Það kemur þó stundum fyrir að ég hristi upp í hlutunum með því að bæta allskonar hráefni í kartöflumúsina og það var þannig sem þessi uppskrift af kartöflumús varð til, ég var með nautalund í matinn og langaði í svona aðeins flottari kartöflumús heldur en þessa hefðbundnu. Ég ofnbakaði bökunarkartöflur og skóf innan úr þeim og setti rjóma, smjör, parmesan ost, rjómaost, hvítlauk og graslauk saman við þær og útkoman var alveg æðisleg. Uppskriftin er stór en hún geymist líka mjög vel, svo það er tilvalið að bera afganginn af henni fram með öðrum mat deginum eftir.

Kartöflumús með parmesan, hvítlauk og rjómaosti:

  • 1 kg bökunarkartöflur
  • 70 g smjör (við stofuhita eða brætt)
  • 3 msk rjómaostur
  • 1 sólóhvítlaukur, pressaður eða mjög fínhakkaður
  • Rjómi eftir þörfum/smekk
  • 1.5 dl ferskrifinn parmesan ostur
  • 2 handfylli smátt saxaður graslaukur
  • Salt og pipar
  • Smá hvítur pipar

Hitið ofn í 200°. Vefjið kartöflunum í álpappír og eldið í klukkutíma. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr álpappírnum og skafið innan úr þeim með skeið. Setjið kartöflurnar í skál. Bætið smjöri, rjómaosti, hvítlauk, parmesan osti, graslauk, salti, pipar og hvítum pipar ofan í skálina og þeytið allt saman á háum hraða. Þynnið kartöflumúsina með rjóma þangað til óskaðri áferð og þykkt er náð.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir