Pasta með kjúklingi, beikoni, parmesan og hvítvíni

Það er svo gaman að setja inn uppskriftir sem eru öruggar til þess að falla í kramið hjá flestum. Þessi pastaréttur, sem ég er búin að þróa uppskriftina af í rúmlega ár, er einmitt þannig. Hann er einstaklega bragðgóður, skemmtilegt að elda hann og enn skemmtilegra að bera hann fram þar sem hann vekur alltaf rífandi lukku. Best finnst mér að nota ferskt fettucine frá Pastella í þessa uppskrift, það er svo mjúkt og bragðgott og passar alveg einstaklega vel með sósunni, sem er rjómakennd og bragðmikil, og þannig verður rétturinn eins og silkimjúkt flauel á tungunni. Meira að segja sambýlismaður minn, sem er alls ekki hrifinn af pasta, er stórhrifinn af þessum rétti og sagðist upplifa sig eins og á flottum veitingastað í útlöndum við að borða réttinn. Þetta er ekta helgarmatur sem er tilvalið að bera fram með hvítvíni og góðu hvítlauksbrauði. Þið bara verðið að prófa!

Pasta með kjúklingi, beikoni, parmesan og hvítvíni:

  • 250 ferskt fettucine
  • 250 g beikon, skorið í strimla
  • 600 g kjúklingalundir/bringur, skornar í munnbita
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • Bezt á flest kryddblanda
  • 150 ml hvítvín
  • 150 ml kjúklingasoð
  • 300 ml rjómi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1 1/2 bolli ferskrifinn parmesanostur (vel þjappað)
  • 1/2 dl steinselja, hökkuð
  • 1/2 tsk rauðar chiliflögur
  • Nýmulinn svartur pipar eftir smekk
  • Ólífuolía til steikingar

Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið beikonið þar til stökkt. Takið beikonið af pönnunni og látið renna mjög vel af því. Steikið kjúklingabringurnar á sömu pönnu (ekki þrífa hana á milli) þar til þær eru fulleldaðar. Kryddið þá kjúklinginn með Bezt á flest kryddblöndu eftir smekk. Steikið áfram í smástund, bætið fínhökkuðum hvítlauk á pönnuna og steikið í 1 mínútu. Hellið hvítvíni yfir kjúklinginn og látið sjóða niður í 20-30 sekúndur. Bætið næst kjúklingasoði, rjóma, ferskrifnum parmesan, kjúklingatening og grænmetistening á pönnuna og látið suðuna koma upp. Kryddið með nýmuldum svörtum pipar eftir smekk og chiliflögum. Þegar osturinn og teningarnir eru bráðnaðir er hitinn lækkaður á lágan og steinseljunni bætt á pönnuna. Bætið beikoninu á pönnuna og blandið öllu vel saman. Látið sósuna malla á vægum hita á meðan pasta er soðið eftir leiðbeiningum upp úr vel söltu vatni. Notið töng til þess að veiða pastað upp úr pottinum og bætið því á pönnuna í nokkrum skömmtum. Blandið pastanu vel saman við sósuna og látið allt malla saman á pönnunni í 1-2 mínútur. Berið fram með ferskrifnum parmesan, nýmuldum svörtum pipar og steinselju.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir