Ofnbakaður fiskur í camembert smurosta sósu

Mér þykir fátt betra heldur en hversdagsmatur og fiskur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er samt ódugleg við að prófa nýjar fiskiuppskriftir, af ástæðum sem ég er ekki alveg með á hreinu. Oftast elda ég bara sömu réttina aftur og aftur, viku eftir viku en svo inná milli prófa ég eitthvað nýtt. Þessi fiskréttur varð til í ísskápstiltekt hjá mér og var alveg stórgóður. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og þetta vakti mikla lukku á heimilinu. Einfalt og stórgott.

Ofnbakaður fiskur í camembertosta sósu:

  • 700 g hvítur fiskur (ég notaði þorsk)
  • 1 púrrulaukur (bara hvíti og ljósgræni hlutinn)
  • 8 sneiðar beikon
  • 1 dós camembert smurostur
  • 2 dl matreiðslurjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 tsk sojasósa
  • Salt og pipar
  • Aromat
  • Rifinn ostur

Hitið ofn í 175°. Skerið fiskinn í passlega bita og raðið í eldfast mót. Kryddið með salti og pipar og arómati eftir smekk. Skerið púrrulaukinn og beikonið í strimla. Hitið smá olíu á pönnu og steikið púrrulaukinn þangað til klístraður. Raðið púrrulauknum yfir fiskinn og steikið beikonið á sömu pönnu þangað til stökkt. Dreifið beikoninu yfir púrrulaukinn. Setjið næst camembertsmurost og rjóma á pönnuna og hrærið í ostinum á meðan hann er að bráðna. Þegar osturinn er bráðnaður, bætið þá kjúklingatening og sojasósu á pönnuna. Látið allt malla saman á vægum hita í 10 mínútur og smakkið til með sojasósu. Hellið sósunni yfir fiskinn og gratínerið með osti. Eldið við 175° í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn kominn með fallegan lit. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir