Bourbon Chicken

Þegar ég bjó í Bandaríkjunum pantaði ég mér Bourbon Chicken á veitingastað og varð dolfallin við fyrsta bita. Síðan þá hef ég bæði borðað hann á veitingastöðum og í mínu eigin eldhúsi margoft og er alltaf hæst ánægð. Rétturinn er ekki beint hristur fram úr erminni og hráefnalistinn er langur, en ég lofa að rétturinn er þess virði þegar sest er niður og byrjað að borða. Stórgóður réttur sem slær alltaf í gegn, bæði hjá börnum og fullorðnum.

Bourbon Chicken (töluvert mikið breytt uppskrift frá Dinner, then dessert):

  • 1.2 kg kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 2 bollar + 1 msk kornsterkja
  • 3 eggjahvítur
  • 1 tsk sykur
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk nýmulinn svartur pipar
  • 8 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 bolli vatn
  • 1/2 bolli eplasafi
  • 1/4 bolli bourbon
  • 1/2 bolli kjúklingasoð
  • 2/3 bolli sojasósa
  • 1/3 bolli tómatsósa
  • 1 bolli púðursykur
  • 2 msk eplaedik
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk engiferduft
  • 1/2 tsk rauðar chili flögur
  • Bragðdauf olía til steikingar
  • 4 vorlaukar, sneiddir þunnt
  • Sesamfræ

Hitið vel af olíu í mjög djúpum potti. Skerið kjúklingabringurnar í passlega bita. Hrærið saman eggjahvítum, sykri og salti og hrærið kjúklingabringunum saman við. Setjið 2 bolla af kornsterkju í plastpoka og setjið kjúklingabitana í pokann og lokið pokanum. Veltið kornsterkjunni mjög vel utan um kjúklinginn þannig að allir bitnarnir séu vel hjúpaðir. Djúpsteikið bitana í olíunni í smáum skömmtum og látið renna af þeim á bökunarpappír. Ég mæli með að djúpsteikja kjúklinginn tvisvar, þá verður hann extra stökkur. Haldið eftir 2 msk af olíunni sem kjúklingurinn var steiktur upp úr.

Hitið olíuna sem kjúklingurinn var steikur upp úr á pönnu og steikið fínhökkuð hvítlauksrif upp úr henni í ca. 20 sekúndur. Bætið við vatni, eplasafa, bourbon, kjúklingasoði, sojasósu, tómatsósu, púðursykri, laukdufti, engiferdufti og rauðum chiliflögum. Hitið að suðu og bætið þá kjúklingnum á pönnuna. Látið malla í 10-15 mínútur, eða þar til sósan hefur minnkað um helming. Hrærið þá 1 msk af kornsterkju saman við 1 msk af vatni og bætið á pönnuna. Látið sjóða þangað til sósan hefur þykknað aðeins. Stráið sesamfræjum yfir réttinn á pönnunni og berið strax fram með sneiddum vorlauk og hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir