Ostasalat með beikoni, döðlum og kryddídýfu

Ég dýrka ostasalöt og hef búið til og borðað ógrynni af þeim í gegnum tíðina. Þetta gamla góða með ananaskurli, púrrulauk og papriku stendur alltaf fyrir sínu og er gjörsamlega frábært. Það eru því stór orð þegar ég segi að þetta ostasalat, sem ég er búin að þróa uppskriftina af í dágóðan tíma, er það allra besta sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Ég hef verið beðin um að koma með það í margar veislur og það slær alltaf í gegn og þegar ég kom með þetta ostasalat í afmæli bestu vinkonu minnar leist henni ekkert á blikuna þegar hún sá hvað salatið var að hverfa hratt og gekk frá því inn í ísskáp svo hún gæti notið þess eftir veisluna. Það er því óhætt að segja að það er barist um síðustu bitana. Þið bara verðið að prófa!

Ostasalat með beikoni, döðlum, chili og kryddídýfu:

 • 1 pepperoni ostur, rifinn eða skorinn í teninga
 • 1 mexíkóostur, rifinn eða skorinn í teninga
 • 1/2 rauð paprika, smátt söxuð
 • 1/2 rauðlaukur, smátt saxaður
 • 1 rautt chili, fræhreinsað og skorið smátt
 • 6 stórar döðlur, smátt saxaðar
 • 250 g stökkt beikon, smátt saxað
 • Rauð vínber eftir smekk, skorin í fernt
 • 1 dós rauð Voga ídýfa
 • 4-5 msk majónes
 • 1.5 tsk Bezt á flest kryddblanda

Blandið öllu saman og geymið í lokuðu íláti í ísskáp í a.m.k 6 klukkustundir fram að notkun. Berið fram með kexi, snittubrauði, súrdeigsbrauði, tengdamömmutungum eða hverju sem hugurinn girnist – þetta er gott með öllu!

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir