Spaghetti Carbonara

Ég elska Spaghettí Carbonara og þessi uppskrift er sú besta sem ég hef smakkað. Ekki skemmir fyrir hvað rétturinn er fljótgerður og einfaldur. Í alvöru Carbonara á að nota guanciale (grísakinn) og pecorino ost en ef þú finnur ekki slíkt er vel hægt að nota pancetta og/eða parmesan ost í staðinn. Pancetta hef ég keypt í Costco og Krónunni og líka pecorino ost. Mér þykir gott að setja 1-2 hvítlauksrif sem hafa verið skorin í tvennt á pönnuna þegar ég steiki pancettað en það er fullkomlega valkvæmt. Stórgott og vert að prófa!

Spaghetti Carbonara (uppskrift fyrir 3 frá Vincenzo’s plate):

  • 300 g spaghettí
  • 300 pancetta/guanciale
  • 200 g rifinn parmesan/pecorino ostur
  • 4 egg
  • Nýmulinn svartur pipar
  • Gróft salt

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum upp úr vatni með handfylli af grófu salti. Steikið pancetta/guanciale á miðlungsháum hita þar til það byrjar að brúnast aðeins. Passið að ofsteikja það ekki þar sem það getur skemmt carbonara bragðið. Hrærið saman 4 eggjum og 200 g af rifnum parmesan/pecorino osti og ógrynni af svörtum pipar. Þegar spaghettíið er soðið er slökkt á eldavélinni (bæði undir spaghettíinu og pancettanu) og töng notuð til þess að færa spaghettíið yfir á pönnuna með pancettanu. Takið ausu af pastavatninu og hrærið saman við eggjablönduna með gaffli. Kveikið núna undir pönnunni en hafið hana á lágum hita. Bætið eggjablöndunni á pönnuna og hafið hraðar hendur, eggin mega alls ekki steikjast. Notið töng til þess að blanda öllu mjög vel saman og berið strax fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir