Sjávarréttasúpa með lúðu og humri

Ég elska súpur en elda þær furðulega sjaldan af ástæðum sem ég get ekki alveg sett fingurinn á. Það gerist þó einstaka sinnum að ég rek augun í uppskrift af girnilegri súpu og ákveð að gera einhverja útgáfu af henni í eldhúsinu mínu. Þegar ég rak augun í þessa súpu hugsaði ég að ég yrði að skella í hana sem fyrst en ákvað að breyta aðeins til og setja lúðu og humar í súpuna (af því ég elska humar og lúðu) og breytti líka hlutföllunum og bætti við kryddum og öðrum hráefnum. Útkoman var ein besta sjávarréttasúpa sem ég hef smakkað. Súpuna bar ég fram með nýbökuðu New York Times-brauði og þeyttu kryddsmjöri og við ætluðum ekki að geta hætt að borða, svo góður var maturinn. Einfalt og stórgott, þetta verður eldað aftur og aftur…

Sjávarréttasúpa með lúðu og humri (breytt uppskrift frá Guðrúnu Veigu):

 • 600 g smálúða, roðflett
 • 400 g skelflettur humar
 • Ólífuolía og smjör til steikingar
 • 1 púrrulaukur, strimlaður
 • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
 • 1 gul eða appelsínugul paprika, strimluð
 • 1 tsk karrí
 • 1 tsk arómat
 • 1/2 tsk chiliduft
 • Smá cayenne pipar
 • 250 ml hvítvín
 • 1 líter vatn
 • 2 dl rjómi
 • 2 fiskiteningar
 • 2 grænmetisteningar
 • 1 askja rjómaostur með svörtum pipar
 • 1 stk piparostur
 • 1 stk hvítlauksostur
 • Estragron
 • 4 kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
 • Spergilkál eftir smekk
 • Salt og pipar eftir smekk

Hitið smá ólífuolíu í potti og steikið grænmetið, ásamt karrí, estragoni , chili dufti og arómati í nokkrar mínútur. Hellið hvítvíni yfir og látið sjóða niður um ca. 1/3. Setjið næst vatn, rjóma, grænmetisteninga og fiskiteninga á pönnuna og látið suðuna koma upp. Bætið kartöflum og og spergilkáli í pottinn og látið sjóða um stund. Rífið hvítlauksostinn og piparostinn niður og setjið þá og rjómaost með svörtum pipar í pottinn. Látið sjóða saman á miðlungsháum hita í 20-30 mínútur. Stekið humarinn á pönnu upp úr smjöri og skerið lúðuna í strimla og bætið því svo í pottinn. Látið sjóða í 2-3 mínútur. Takið pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Berið fram með góðu brauði og þeyttu kryddsmjöri.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir