Fyrir skömmu sendi systir mín mér myndband af alveg einstaklega girnilegu spaghettí á Tik Tok. Spaghettí er soðið og síðan sett í eldfast mót, ásamt Alfredo sósu, næst er gerð kjötsósa og sett yfir spaghettíið sem er að lokum gratínerað með osti. Svolítið eins og spaghettí lasagne með Alfredo sósu í staðinn fyrir Bechamel. Ég er ekki hrifin af lasagne en ég elska spaghettí og Alfredo sósu, svo það kom ekki annað til greina en að prófa þetta sem fyrst. Sú sem deildi myndbandinu notaði Alfredo sósu úr krukku og lét duga að hella marianara sósu yfir nautahakkið en ég ákvað að djassa þetta aðeins upp og búa til almennilega kjötsósu úr rauðvíni og gerði Alfredo sósuna frá grunni. Útkoman var einn besti réttur sem ég hef smakkað í langan tíma. Uppskriftin er drjúg og það var meira en nóg fyrir okkur tvö í kvöldmat og veglegur afgangur sem við borðuðum deginum eftir. Rétturinn geymist vel og þornar ekki upp, hann var að mörgu leyti betri deginum eftir. Hvítlauksbrauð og rauðvínsglas fullkomnuðu mátíðina endanlega – þvílík veisla. Þið bara verðið að prófa!
Tik Tok Spaghettí:
Kjötsósan:
- 500 g nautahakk
- 1 laukur, hakkaður
- 8 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk hvítlauksduft
- 1 msk paprikukrydd
- Salt og pipar
- Chili explosion eftir smekk
- 1 msk Dijon sinnep
- 2 msk tómatsósa
- 1 nautateningur
- 1 krukka marinara sósa
- 1 bolli rauðvín
Hitið ofninn í 175°. Takið til stóra pönnu og steikið nautahakkið á miðlungsháum hita. Þegar það er næstum því eldað í gegn er lauknum og hvítlauknum bætt á pönnuna og látið steikjast í smástund. Næst eru kryddin sett á pönnuna og öllu blandað vel saman. Hellið rauðvíninu yfir nautahakkið og látið sjóða niður í 30 sekúndur. Setjið næst marinara sósu, tómatsósu og Dijon sinnep á pönnuna og blandið öllu vel saman. Bætið nautateningnum á pönnuna og látið hann bráðna. Látið malla á vægum hita í 30 mínútur (eða lengur ef tíminn leyfir). Á meðan kjötsósan mallar er alfredo sósan gerð og spaghettí soðið eftir leiðbeiningum á pakka, en styttið suðutímann um 2 mínútur.
Alfredo sósan:
- 1/2 bolli smjör
- 2 bollar rjómi
- 120 g rjómaostur
- 3 tsk fínhakkaður hvítlaukur
- 1 tsk Pizzakrydd frá Prima (eða annað álíka krydd)
- 1/4 tsk svartur pipar
- 1/4 tsk salt
- 1 bolli rifinn parmesan ostur
Bræðið smjör, rjóma og rjómaost í potti á miðlungsháum hita. Hrærið vel í þessu á meðan smjörið og rjómaosturinn eru að bráðna. Bætið hvítlauk og kryddum saman við. Hrærið öllu vel saman þangað til sósan er alveg slétt. Bætið parmesan ostinum saman við sósuna og látið hana malla í 3-5 mínútur.
Önnur hráefni:
- 300 g spaghettí
- 1.5 bolli rifinn ostur
Smyrjið rúmgott eldfast mót með smjöri. Þegar spaghettíið er tilbúið er vatninu hellt af og spaghettíið sett í eldfasta mótið. Hellið alfredo sósunni yfir spaghettíið og notið töng til að blanda sósunni saman við spaghettíið, þannig að sósan hjúpi það allt mjög vel. Raðið kjötsósunni yfir spaghettíið með skeið og sléttið úr því þannig að kjötsósan sé í jafn þykku lagi yfir öllu spaghettíinu. Gratínerið með rifnum osti og bakið í ofni í 30 mínútur. Látið réttinn standa í 15 mínútur áður en hann er borinn fram.