Ég hef alla tíð borðað Waldorf salat með páskasteikinni og jólamatnum og hef alltaf verið stórhrifin af ferskleikanum og sætunni sem fylgir því þegar það er borið fram með þungu kjöti. Ég varð því mjög áhugasöm þegar ég sá uppskrift af Snickers salati á Instagram og ákvað að gera salatið á næstu Þakkargjörðarhátíð (sem ég hef haldið uppá síðan ég bjó í Bandaríkjunum) með kalkún og öllu tilheyrandi. Ég þurfti þó svolítið að fara mínar eigin leiðir til þess að gera salatið því upphaflega uppskriftin innihélt m.a. Coolwhip og vanillubúðing í dós, sem fæst ekki á Íslandi. Ég ákvað að nota þeyttan rjóma og majónes, eins og er í Waldorf salati, og Royal vanillubúðing. Útkoman var æðisleg og vakti mikla lukku meðal matargesta. Salatið hef ég líka borið fram með svínahamborgarhrygg á jólunum og með lambalæri. Það smellpassar með öllu og sagan segir að salatið sé syndsamlega gott borðað beint úr skálinni með skeið fyrir framan ísskápinn…
Snickerssalat:
- 6 græn epli, skorin í teninga
- 6 snickers stykki, skorin í teninga
- 1 pakki Royal vanillubúðingur
- 2 dl rjómi
- 2.5 dl nýmjólk
- 3 msk majónes
Þeytið vanillubúðing og nýmjólk saman í skál og setjið í ísskáp í 10-15 mínútur. Þeytið rjómann. Skerið snickers og græn epli í teninga og setjið í skál. Hærið majónesi saman við vanillubúðinginn þar til hann er alveg kekkjalaus. Hrærið þeytta rjómanum saman við vanillubúðinginn. Blandið eplunum og snickersinu varlega saman við rjómablönduna með sleif. Geymið í ísskáp þangað til borið fram.
*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay