Ég elska fisk en er samt frekar ódugleg við að prófa nýjar uppskriftir. Heima við held ég mig oft við sömu réttina svo mánuðum skiptir, hins vegar þegar ég fer á veitingastaði panta ég mér langoftast fiskrétti og fæ þá hugmyndir að nýjum réttum til að prófa heima. Það var einmitt þannig sem uppskriftin af þessum rétt varð til. Ég og sambýlingurinn fórum á Lauga-Ás þegar sá staður var og hét og fengum okkur gratíneraða rauðsprettu. Okkur fannst rétturinn svakalega góður og skömmu seinna reyndi ég að leika hann eftir tilfinningu í eldhúsinu mínu. Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá var rétturinn minn alls ekkert líkur þeim sem við fengum á Lauga-Ási en hann var svo stórkostlega góður að okkur var í raun alveg sama. Síðan þá hef ég oft eldan þennan rétt, alltaf við rífandi lukku. Þetta er réttur sem passar vel í hversdagsleikanum með hrísgrjónum en það má líka bjóða uppá hann um helgar eða þegar gesti ber að garði og bera hann þá fram með góðu hvítlauksbrauði. Ég hef notað þorsk, rauðsprettu, lúðu og steinbít í þennan rétt og útkoman er alltaf góð, svo notið bara þann hvíta fisk sem ykkur finnst góður.
Gratíneraður fiskur með blaðlauk og papriku
- 800 g hvítur fiskur
- 300 g rækjur
- 1/2 blaðlaukur, skorinn í sneiðar
- 1/2 rauð paprika, skorin í teninga
- 200 g rjómaostur
- 200 ml rjómi
- 200 ml kjúklingasoð
- 1 fiskiteningur
- 1/2 tsk arómat
- 1/2 tsk kjöt&grillkrydd
- Hveiti til að velta fiskinum upp úr
- Smjör til steikingar
- Nýmulinn svartur pipar eftir smekk
- Smá cayenne pipar
- Rifinn ostur
- Steinselja eða graslaukur (má sleppa)
Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn í passlega bita og veltið upp úr hveiti. Steikið fiskinn á pönnu upp úr smjöri á háum hita þar til hann fær steikingarhúð. Raðið fisknum í eldfast mót og raðið rækjum, papriku og blaðlauk yfir fiskinn. Setjið kjúklingasoð, rjómaost, rjóma, fiskitening, arómat og kjöt&grillkrydd á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með svörtum pipar og cayenne pipar. Hellið sósunni yfir fiskinn og gratínerið með rifnum osti. Eldið í ofni í 15-20 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður og fiskurinn eldaður í gegn. Berið fram með hrísgrjónum. Stráið graslauk eða steinselju yfir réttinn ef þess er óskað.