Hægeldaður nautahnakki í kóksósu

Ég elska hægeldað kjöt, þá sérstaklega hægeldaða nautahnakka og svínahnakka. Það er einhver skemmtilegur sjarmi yfir mat sem tekur stutta stund að útbúa og svo sér hann bara um sig sjálfur í ofninum yfir daginn, auk þess sem húsið fyllist af góðri matarlykt. Þessi réttur er einmitt þannig, tekur enga stund að græja hann og koma honum í ofninn og húsið lyktar dásamlega allan daginn. Þegar líður að matartíma þarf svo ekki að gera annað en að leggja á borð og útbúa kartöflumús. Þetta er ekta sunnudagsmatur í vetrarkuldanum sem er tilvalið að njóta með kveikt á kertum og jafnvel með rautt í glasinu. Uppskriftin er drjúg og það er upplagt að setja afganga af kjötinu í vefjur eða hamborgarabrauð með því meðlæti sem hugurinn girnist. Nautahnakkann keypti ég í Kjöthöllinni, en hann er yfirleitt til í borðinu hjá þeim.

Hægeldaður nautahnakki í kóksósu:

  • 1.2 kg nautahnakki, skorinn í 3 cm sneiðar
  • Bezt á nautið
  • 2 pakkar sveppasúpa frá Toro
  • 1 dl nautasoð (eða vatn)
  • 3.5 dl rjómi
  • 3-4 dl kók (ekki sykurlaust)
  • 1 nautateningur
  • 2 tsk Worcestershire sósa
  • Smá hvítur pipar
  • Smjör til steikingar

Hitið ofninn í 130°. Nuddið Bezt á nautið kryddi á nautahnakksneiðarnar og steikið þær upp úr vel af smjöri á háum hita á millistórri pönnu. Raðið nautahnakkssneiðunum í botninn á ofnpotti (eða notið eldfast mót ef þið eigið ekki ofnpott, setjið þá álpappír yfir formið áður en það fer inn i ofn). Setjið nautatening og nautasoð á pönnuna og látið suðuna koma upp. Setjið næst pakkana tvo af sveppasúpu á pönnuna og hrærið öllu vel saman. Bætið rjómanum á pönnuna, smátt og smátt og hrærið vel í súpunni á meðan. Hún á að vera mjög þykk. Setjið næst kók, worcestershire sósu og hvítan pipar á pönnuna og látið allt sjóða saman þangað til súpan er þykk en kekkjalaus. Hellið sósunni yfir nautahnakkssneiðarnar, setjið lok á ofnpottinn og setjið hann inn í ofn. Eldið í 7-8 klukkustundir. Þegar kjötið er tilbúið er það tætt í sundur með gaffli og hrært vel saman við sósuna. Berið fram með kartöflumús.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir