Ég elska rækjusalat og finnst þessi einföldu langbest. Ég er ekki sérlega hrifin af grænmeti eins og papriku eða lauk í rækjusalat og finnst hreinlega að það ætti að vera ólöglegt að setja karrí í það. Best finnst mér rækjusalat sem er ekki of blautt, vel kryddað og með mikið af eggjum. Þetta salat er einmitt þannig og ég hef varla keypt rækjusalat síðan ég bjó þetta salat til fyrst, enda er það einstaklega fljótgert og margfalt betra en keypt salat. Þetta salat passar líka með öllu, Ritz kexi, Tuc kexi, franskbrauði, heimilisbrauði og súrdeigsbrauði. Þetta bara getur ekki klikkað og ég mæli eindregið með að þið prófið.
Rækjusalat:
- 400 g rækjur
- 8 harðsoðin egg
- 4-6 msk majónes
- 2 tsk arómat
- 1 tsk sítrónupipar
- Nýmulinn svartur pipar eftir smekk
Hrærið öllu saman og geymið í loftþéttu íláti í ísskáp í að minnsta kosti 4 klukkutíma fram að notkun.