Kjöthleifur með tómatsósugljáa

Þegar ég var lítil eldaði mamma oft kjöthleif (sem hún kallaði alltaf svikinn héra) með beikoni utan um og bar hann fram með kartöflum, brúnni sósu og sultu. Mér þótti það alveg ofsalega gott en þegar ég bað hana um uppskriftina sagði hún mér að hún fór aldrei eftir neinni uppskrift, heldur notaði hún bara þau hráefni sem voru til í það skiptið. Ég hef því yfirleitt bara farið eftir uppskriftum af veraldarvefnum og varð rosalega spennt þegar ég sá uppskrift af kjöthleif pensluðum með tómatsósu á Instagram. Ég tók skjáskot af uppskriftinni og setti hana beint á vikumatseðilinn – það var góð ákvörðun því þetta er einn besti kjöthleifur sem ég hef smakkað á ævi minni. Ég bar hann fram með soðnum kartöflum, þessari sósu sem er út úr þessum heimi dásamlega góð, hrásalati og rifsberjahlaupi. Við átum á okkur gat! Þið bara verðið að prófa.

Kjöthleifur með tómatsósugljáa:

  • 500 g nautahakk
  • 1/2 bolli brauðrasp (ég notaði panko)
  • 1/2 laukur, skorinn smátt
  • 1/2 bolli mjólk
  • 1 eggjarauða
  • 2 msk tómatsósa
  • 2 msk Worcestershire sósa
  • 1 msk sætt sinnep
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk þurrkað oregano
  • 1 tsk þurrkuð basilika

Hitið ofninn í 190°. Byrjið á að steikja laukinn upp úr smá smjöri þangað til hann verður glær, eða í um 3-5 mínútur. Bætið þá mjólk, kryddum, tómatsósu, worcestershire sósu og sinnepi á pönnuna og blandið öllu vel saman. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur og hrærið eggjarauðunni saman við. Setjið nautahakk, brauðrasp og eggjablönduna saman í skál og blandið mjög vel saman. Smyrjið eldfast mót. Mótið hleif úr nautahakksblöndunni og setjið í eldfasta mótið. Eldið í 30 mínútur. Takið þá hleifinn úr ofninum og penslið hann með tómatsósu. Setjið hleifinn aftur í ofninn og eldið í 5 mínútur til viðbótar. Látið kjöthleifinn standa i 5-10 mínútur áður en hann er skorinn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir