Pasta með pylsum, beikoni og smurosti

Ég veit að flestir eiga sennilega sína uppskrift af rjómakenndu pylsupasta en þessi uppskrift, sem Laufey vinkona mín á heiðurinn af, er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún bauð okkur vinkonunum oft í þennan rétt til sín, alltaf við rífandi lukku. Pylsur, beikon, rjómi, pasta… hamingjan verður taumlaus við að borða þennan dásamlega rétt. Meira að segja sambýlismaður minn, sem er ekki sérlega hrifinn af pasta, skóflar þessum rétt í sig þegar ég elda hann og kláraði einu sinni afganga af honum frá mér þegar ég var sofandi. Ég hef að mestu fylgt upphaflegu uppskriftinni frá Laufey, en bætti við kjúklingasoði og kjúklingatening sem lyfti réttinum á enn hærra stig og – það sem betra er – kjúklingasoðið gerir það að verkum að rétturinn þornar ekki upp og er bara alveg jafn góður deginum eftir. Ég mæli eindregið með að þið prófið, því þetta pasta er bara svo gott!

Pylsupasta:

  • 350 g pasta (ég nota alltaf fusilli í þessa uppskrift)
  • 1 tvöfaldur pakki SS pylsur
  • 250 g beikon
  • 1/2 púrrulaukur
  • 1 rauð paprika
  • 1 dós beikonsmurostur
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 200 ml kjúklingasoð
  • 200 ml rjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • Nýmulinn svartur pipar eftir smekk

Skerið pylsurnar og beikonið í bita. Steikið upp úr smá smjöri þangað til beikonið er orðið stökkt og pylsurnar komnar með fallega steikingarhúð. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Skerið paprikuna í bita og blaðlaukinn í strimla. Steikið á sömu pönnu þangað til þetta byrjar að mýkjast. Setjið þá beikonið og pylsurnar aftur á pönnuna og blandið öllu vel saman. Bætið næst rjómaosti og beikonsmurosti á pönnuna og látið ostana bráðna örlítið. Þegar þeir eru byrjaðir að bráðna er kjúklingasoði, rjóma og kjúklingatening bætt á pönnuna. Látið suðuna koma upp og lækkið hitann (ég nota stillingu 3 af 9). Látið þetta malla á vægum hita á meðan pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum í vel söltu vatni og smakkið til með svörtum pipar. Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af og pastað sett á pönnuna. Blandið öllu mjög vel saman og látið malla í 2 mínútur áður en borið fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir