Kínverskur sítrónu kjúklingur

Systir mín kynnti mig fyrir kínverskum sítrónukjúkling, eða chinese lemon chicken, og ég var fljót að finna uppskrift til þess að prófa hér heima. Þessi réttur er ekki beint fljótgerður en hann er vel þess virði að eyða tíma í að elda hann því hann er stórgóður. Ég hef ekki prófað aðrar uppskriftir en hugsa að ég haldi mig við þessa því hún er alveg skotheld. Ég man því miður ekki hvaðan uppskriftin kemur en ég á ekkert í henni, eina breytingin sem ég gerði var að bæta við sesamfræjum og vorlauk af því ég elska sesamfræ og vorlauk. Einnig djúpsteikti ég kjúklinginn tvisvar (steikti hann fyrst í nokkrum skömmtum og setti svo alla bitana aftur í pottinn í 2-3 mínútur) til þess að fá hann extra stökkan og til þess að hita upp bitana sem kólnuðu á meðan aðrir bitar voru steiktir.

Kínverskur sítrónukjúklingur:

  • 700 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 2 upphrærð egg
  • Salt og pipar
  • 1/2 bolli hveiti
  • 1/2 bolli + 1 msk kornsterkja
  • Bragðdauf olía til steikingar
  • 1/3 bolli ferskur sítrónusafi
  • 1 tsk rifið híði af sítrónu (passið að taka bara gula partinn)
  • 1/3 bolli sykur
  • 1/2 bolli vatn
  • 2 tsk sesamfræ
  • 2 vorlaukar, sneiddir

Setjið egg í skál, ásamt salti og pipar, og hrærið vel saman. Setjið ½ bolla af hveiti og ½ bolla af kornsterkju í aðra skál og blandið vel saman. Hitið olíu í rúmgóðum potti þangað til hún nær 180°. Veltið kjúklingabitunum upp úr eggjunum og næst hveitiblöndunni. Djúpsteikið kjúklingabitana í olíunni í nokkrum skömmtum í 5-7 mínútur. Látið renna af kjúklingnum á bökunarpappír. Á meðan kjúklingurinn er steiktur er sítrónusósan útbúin. Setjið sítrónusafa, vatn og sykur í lítinn pott og látið hitna þannig að sósan malli aðeins en sjóði ekki. Blandið 1 msk af kornsterkju saman við 2 msk af köldu vatni og bætið út í sósuna og látið suðuna koma upp. Látið sjóða í 1-2 mínútur og hrærið stöðugt í sósunni á meðan. Setjið kjúklinginn í eldfast mót eða skál og hrærið sósunni og fínrifnu sítrónuhýði saman við þannig að allir bitarnir hjúpist vel. Stráið sesamfræjum og vorlauk yfir og berið strax fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir