Ég elska brownies og þegar ég sá þessa uppskrift á Instagram var ég fljót að bruna beint inn í eldhús að baka þær. Þessar brownies eru dásamlega seigar og bragðmiklar, brúnaða smjörið gefur svo gott bragð á móti kaffibragðinu og súkkulaðibitarnir setja svo alveg punktinn yfir i-ið. Brownie unnendur mega aldeilis ekki láta þessa uppskrift fram hjá sér fara!
Brownies með espresso og brúnuðu smjöri (lítillega breytt uppskrift frá Julie Marie Eats):
- 130 g sykur
- 130 g púður sykur
- 3 egg við stofuhita
- 120 g smjör
- 150 g hakkað suðusúkkulaði (ég notaði suðusúkkulaðidropa)
- 70 g bragðdauf olía (ekki ólífuolía)
- 1 1/2 tsk vanillusykur
- 75 g hveiti
- 35 g kakó
- 1 msk kornsterkja
- 2 msk instant espresso duft
- 1/2 tsk borðsalt
- Dass af sjávarsalti
Hitið ofninn í 160° og klæðið bökunarmót sem er ca. 20×20 cm með bökunarpappír. Setjið smjörið í lítinn pott og látið það brúnast við vægan hita, það tekur um 8-10 mínútur. Hellið smjörinu yfir í skál og hrærið kakói og 75 g af suðusúkkulaðinu saman við smjörið þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað. Hrærið hveiti, borðsalti, espresso dufti og kornsterkju saman í annarri skál og setjið til hliðar. Setjið egg, púðursykur og sykur í aðra skál og þeytið saman í 4 mínútur. Bætið smjörblöndunni, olíu og vanillusykri saman við og þeytið áfram í smástund. Bætið næst hveitiblöndunni varlega saman við. Setjið restina af súkkulaðinu út í deigið og blandið varlega saman með sleikju. Hellið deiginu í formið og bakið í 45-50 mínútur. Stráið smá sjávarsalti yfir kökuna þegar hún er tilbúin en látið hana kólna alveg áður en hún er skorin í passlega brownie bita.