Kjötbollur í chilikóksósu

Ég hreinlega elska hefðbundnar heimagerðar kjötbollur með rjómasósu, kartöflumús og sultu og gæti auðveldlega lifað á þeim. Það gerðist þó í fyrra að ég eldaði klassískar kjötbollur og rjómasósu svo oft að bæði ég og sambýlismaðurinn fengum leið á þeim. Þá datt mér í hug að bregða aðeins út af vananum og elda kjötbollur í einhverskonar chilisósu. Ég fór á stúfana að leita að sniðugri uppskrift en fann ekkert sem mér leist nógu vel á og ákvað að henda bara í eitthvað út frá því sem ég átti til í ísskápnum.

Útkoman varð einar bestu kjötbollur sem ég hef á ævinni bragðað. Mér þóttu þær alveg dásamlegar, og enn betri deginum eftir, og sambýlingurinn sagðist gefa þeim 9.5/10 í einkunn. Þessar kjötbollur er hægt að gera stórar og bera fram með kartöflumús sem kvöldmat en það er einnig sniðugt að gera þær aðeins minni og láta þær kólna í sósunni og bera þær fram sem pinnamat. Ef þið ákveðið að prófa þessa uppskrift, þá mæli ég með að gera góðan skammt til þess að eiga örugglega afgang því þær eru svo dásamlega góðar deginum eftir. Sósan er svo góð þegar hún kólnar því hún nær að brjóta sig svo vel saman og þykknar líka við kólnun, svo hún hjúpar þá bollurnar alveg sérlega vel. Klikkgott og vert að prófa!

Kjötbollur í chilikóksósu

 • 500 g nautahakk
 • 1 pakki bacon Tuc kex, fínmulið
 • 1 egg
 • 1/2 græn paprika, smátt söxuð
 • 1/2 rauðlaukur, smátt saxaður
 • 1 msk heitt pizzakrydd
 • 1/2 piparostur, skorinn í litla teninga
 • Salt og pipar
 • 1 flaska Heinz chilisósa
 • 2.5 dl rifsberjahlaup
 • 2.5 dl kók (ekki sykurlaust)
 • 2 nautateningar
 • 3 tsk Worcestershire sósa

Hitið ofninn i 180°. Blandið saman nautahakki, eggi, muldu kexi, papriku, rauðlauk, pizzakryddi, piparost í teningum og salti og pipar vel saman og mótið bollur. Raðið bollunum í eldfast mót og bakið í 15-20 mínútur. Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan gerð. Setjið chilisósu, rifsberjahlaup, kók, nautateninga, Worcestershire sósu og salt og pipar eftir smekk í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann og látið sósuna malla þangað til kjötbollurnar eru eldaðar. Takið mótið úr ofninum, hellið sósunni yfir bollurnar og látið aftur í ofninn í 10-15 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir