Smjörsoðin hrísgrjón með hvítlauk og steinselju

Þessi hrísgrjón eru alveg ótrúlega skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum soðnum hrísgrjónum. Ég elska að bera þessi hrígrjón fram með öllum fisk og líka með kjúklingi. Þau passa í rauninni við flestallt og lífga mjög mikið upp á máltíðina. Einnig eru þau mjög góð, jafnvel betri, deginum eftir. Ég á ekki heiðurinn af uppskriftinni, en man því miður ekki hvaðan hún kemur. Einhvern tímann tók ég skjáskot af uppskriftinni en lét ekki verða af því að prófa uppskriftina fyrr en löngu löngu seinna. Ég gerði örlitla breytingu á henni og birti hana hér með mínum breytingum.

Smjörsoðin hrísgrjón með hvítlauk og steinselju

  • 4 msk smjör
  • 5-8 hvítlauksgeirar, fínhakkaðir
  • 1 1/2 bolli ósoðin hrísgrjón
  • 2 1/2 bolli kjúklingasoð
  • 1 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 grænmetistengingur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 tsk svartur pipar
  • 2 msk fersk steinselja

Bræðið 2 msk af smjöri í potti við vægan hita. Þegar smjörið er bráðnað, bætið þá hvítlauknum í pottinn og steikið í um 1 mínútu. Hrærið grjónunum saman við hvítlaukssmjörið og passið að smjörið hjúpi öll grjónin. Bætið þá kjúklingasoði, salti, pipar, grænmetistening og þurrkaðri steinselju saman við og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann á tiltölulega lágan, setjið lok á pottinn og látið sjóða í um 15 mínútur, eða þar til allur vökvi er horfinn. Hrærið þá fersku steinseljunni saman við, takið af hitanum og setjið lokið aftur á pottinn og látið standa í um 5-10 mínútur. Hrærið upp í grjónunum með gaffli og hrærið 2 msk af smjöri saman við grjónin. Bætið við salti, pipar og steinselju eftir smekk. Skreytið með smá ferskri steinselju sé þess óskað.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir