Eins og flestir, þá er ég mjög hrifin af eðlu. Ég elska líka matarmiklar eðlur, t.d. með kjúklingi og nautahakki og finnst sérlega gaman að útbúa slíka rétti á föstudagskvöldum og borða yfir sjónvarpinu. Eitt kvöldið datt mér svo í hug að gera eðlupizzu með nautahakki, þar sem ég átti upprúllað pizzadeig og afgang af nautahakki sem ég vildi losna við. Ég fann svo ýmislegt í ísskápnum sem ég vildi losna við líka, m.a. rauðlauk og graslauk, og setti saman pizzu sem reyndist vera alveg ótrúlega góð og skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum pizzum. Þessi pizza er ekta föstudagsmatur, þar sem hún er bæði rosalega góð og líka mjög fljótgerð. Uppskriftin er svo sem ekki heilög og sniðug til þess að nýta hráefni sem er á síðasta snúningi.
Eðlupizza með nautahakki
- Pizzabotn
- Pizzasósa
- Salsasósa
- Rjómaostur
- 1 poki tacokrydd
- 400 g nautahakk
- Nachos
- Mexíkó ostablanda frá Gott í matinn
- Smátt saxaður rauðlaukur
- Smátt saxaður graslaukur
Blandið saman rjómaosti og hálfum poka af taco kryddinu. Smyrjið pizzabotninn með rjómaostinum. Blandið saman salsa- og pizzasósu í jöfnum hlutföllum og dreifið yfir rjómaostinn. Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið með restinni af tacokryddinu. Setjið nautahakkið yfir pizzabotninn og myljið nachos yfir. Stráið rifnum osti yfir og bakið við 200° þar til osturinn er bráðnaður. Látið pizzuna kólna aðeins áður en hún er skorin í sneiðar. Stráið smátt söxuðum rauðlauk og graslauk yfir. Ég mæli með að bera pizzuna fram með sýrðum rjóma.