Kjúklingur í panang curry

Ég hef alltaf verið mjög hrifin af tælenskum mat og panang curry er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef prófað margar uppskriftir og finnst þessi, sem ég hef breytt töluvert í gegnum tíðina, sú besta sem ég hef smakkað. Ég mæli með að þið prófið þennan rétt, því hann er bæði dásamlega góður og mjög fljótgerður.

Kjúklingur í panang curry

  • 700 g kjúklingabringur, skornar mjög þunnt
  • 1 laukur, skorinn í teninga
  • 1 rauð paprika, skorin í teninga
  • 1 græn paprika, skorin í teninga
  • 8 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 1.5 msk kókosolía
  • 1 dl panang curry paste (fæst í flestum asískum búðum)
  • 6 msk hnetusmjör
  • 3.5 msk fiskisósa
  • 12 kaffir lime laufblöð, mulin
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 msk púðursykur

Sneiðið kjúklingabringurnar eins þunnt og þið getið. Skerið lauk og paprikur í teninga, og saxið hvítlauksgeirana eins smátt og þið getið (mér finnst fínt að henda þeim í KitchenAid saxarann). Myljið kaffir laufin. Hitið kókosolíu á rúmgóðri pönnu og steikið lauk og paprikur í 2-3 mínútur. Bætið hvítlauknum á pönnuna og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Ýtið grænmetinu til hliðar í pönnunni og setjið panang curry og hnetusmjör á pönnuna og steikið í smástund. Hrærið öllu saman og bætið kókosmjólk, kaffir laufum, fiskisósu og púðursykri á pönnuna. Hrærið öllu vel saman og látið malla um stund.

Bætið þá kjúklingnum á pönnuna og látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann aðeins og látið allt sjóða saman þangað til kjúklingurinn er eldaður, eða í um 10-15 mínútur. Smakkið til með fiskisósu, púðursykri og hnetusmjöri. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir