Kjúklingur í súrsætri sósu

Ég hef alltaf verið mjög hrifin af asískum mat og finnst bæði gaman að matreiða og borða hann. Þess vegna varð ég mjög spennt þegar ég sá þessa uppskrift af kjúklingi í súrsætri sósu og setti réttinn strax á vikumatseðilinn. Mér þótti rétturinn hinsvegar ekki alveg nógu góður en fann hverju ég þyrfti að breyta til þess að hann yrði nokkurn veginn fullkominn. Ég punktaði þessar hugmyndir hjá mér og eldaði réttinn aftur stuttu seinna og útkoman var hreint út sagt alveg dásamleg. Ég mæli eindregið með að þið prófið, þó að rétturinn sé ekki beint hristur fram úr erminni, en það er samt sem áður mjög gaman að elda hann og enn skemmtilegra að borða hann.

Kjúklingur í súrsætri sósu – lítillega breytt uppskrift frá Dinner, then dessert

  • 700 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 1/2 bolli kornsterkja
  • 2 upphrærð egg
  • 1/4 bolli hveiti
  • Canola olía til steikingar
  • 250 g ananas í bitum
  • 1 rauð paprika, skorin í teninga
  • 1 græn paprika, skorin í teninga
  • 1 laukur, skorinn í teninga
  • 1/4 bolli sykur
  • 1/2 bolli púðursykur
  • 1/2 bolli eplaedik
  • 1/3 bolli tómatsósa
  • 3 msk sojasósa
  • 8 hvítlauksgeirar, saxaðir mjög fínt
  • Sesamfræ (má sleppa)
  • Vorlaukur (má sleppa)

Byrjið á að hræra saman sykri, púðursykri, eplaediki, tómatsósu og sojasósu saman í skál og setjið til hliðar. Hitið vel af olíu á rúmgóðri pönnu eða jafnvel djúpum potti á miðlungsháan hita. Skerið kjúklingabringur í munnbita og setjið í poka ásamt kornsterkjunni og látið hana hjúpa alla bitana vel. Hjúpið næst kjúklingabitana úr upphrærðu eggjunum og veltið þeim næst upp úr hveiti. Steikið kjúklinginn upp úr olíunni þangað til hann er fulleldaður og stökkur, það tekur um 2-3 mínútur. Færið kjúklinginn yfir á bökunarpappír (alls ekki eldhúspappír!), ég mæli með að steikja þá í tiltölulega smáum skömmtum í einu.

Skerið lauk og paprikur í teninga og saxið hvítlauksgeirana mjög smátt. Þegar búið er að steikja kjúklinginn, hellið þá olíunni af pönnunni en haldið eftir 1 msk af henni. Léttsteikið lauk, hvítlauk, ananas og paprikur upp úr olíunni, ekki þangað til mjúkt, heldur þannig að allt sé svolítið stökkt. Hellið næst sósunni á pönnuna og látið sjóða saman í um 30 sekúndur. Bætið þá kjúklingnum á pönnuna og látið allt sjóða saman þangað til sósan er þykk og „búbblandi“. Berið fram með hrísgrjónum, sesamfræjum og vorlauk.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir