Heimagerðar fiskibollur bornar fram með karrísósu og hrísgrjónum þykir mér algjör herramannsmatur. Þegar ég var yngri keypti ég fiskibollurnar tilbúnar en eftir að ég fór að gera þær sjálf vil ég hreinlega ekki sjá keyptar fiskibollur og skil ekk hversvegna mér þóttu þær góðar. Eftir að ég fékk mér hakkavél til þess að setja á KitchenAid hrærivélina mína hef ég ekki keypt fiskhakk, þar sem mér þykir bæði betra og skemmtilegra að gera hakkið sjálf (enda er KitchenAid hakkarinn mjög skemmtilegt apparat), en að sjálfsögðu má alveg kaupa hakkið úti í búð eða nota matvinnsluvél til að hakka fiskinn. Þessa uppskrift hef ég sennilega fengið frá mömmu á sínum tíma en ég hef breytt henni mikið í gegnum árin, svo mikið að það er hreinlega um allt aðra uppskrift að ræða. Ekki vera hrædd við kryddmagnið, þessi krydd fara æðislega vel saman og gefa einstaklega gott bragð af bollunum. Uppskriftin af karrísósunni er ekki heilög, ef ég á bara rjóma, þá nota ég bara rjóma, ef ég á bara mjólk þá nota ég hana, o.s.frv, útkoman er alltaf góð!
Fiskibollur:
- 1 kg fiskhakk (ég nota 600 g af þorskhnakka og 400 g af ýsu)
- 1 egg
- 4 msk kartöflumjöl
- 1-2 laukar, mjög smátt saxaðir
- 2 gulrætur, rifnar
- 2 sóló hvítlaukar, saxaðir mjög smátt
- 1 grænmetisteningur (eða 1 msk grænmetiskraftur)
- 1/2 tsk cayenne pipar
- 3 tsk þurrkað dill eða 1/2 búnt ferskt dill, fínhakkað
- 1 tsk aromat
- Nýmulinn svartur pipar eftir smekk
- 1 tsk oregano
- 1 tsk þurrkuð basilika
Ef þið notið hrærivél, þá er óhætt að henda öllu í skálina og hræra vel saman (ég tek nokkra snúninga með K-inu), en ef þið eigið ekki hrærivél mæli ég með að setja fiskhakkið í skál og gera holu í miðjuna og setja þar egg, kartöflumjöl, lauka og krydd og hræra vel saman. Mótið bollur með skeið (ég nota ískúluskeið) og steikið upp úr smjörlíki á meðalháum hita. Raðið bollunum í eldfast mót og setjið inn í ofn á 170° á meðan þið sjóðið hrísgrjón og útbúið karrísósu.
Karrísósa
- 3 msk smjör
- 3 msk hveiti
- 2 msk karrí
- 3 dl rjómi
- 2 dl mjólk
- 2 kjúklingateningar
- Sojasósa eftir smekk
Bræðið smjör í potti og hrærið hveiti og karrí saman við. Bætið þá vökvanum út í, ásamt kjúklingateningum. Látið suðuna koma upp og smakkið til með sojasósu.