Þorskur í pestó rjómaosta sósu

Mánudagar eru fiskidagar hjá mér og það heyrir til algjörra undantekninga að ég eldi ekki fisk á mánudögum. Þrátt fyrir það er ég frekar löt við að prófa nýjar fiskiuppskriftir og margar þeirra verða til í ísskápatiltektum hjá mér. Þessi uppskrift kom til þegar ég átti grænt pestó og rjómaost sem var búið að taka af og vildi losna við úr ísskápnum. Það tók enga stund að koma saman réttinum og það kom mér á óvart hvað hann reyndist góður þrátt fyrir fá hráefni og mjög litla fyrirhöfn. Stórgóður og þægilegur réttur á mánudegi, þegar mann langar í eitthvað gott án mikillar fyrirhafnar.

Þorskur í pestó rjómaostasósu:

  • 900 g þorskur
  • 150 g gott grænt pestó
  • 100 g rjómaostur
  • 1 fiskiteningur
  • 2-3 dl rjómi
  • Salt og pipar
  • Smá arómat

Skerið fiskinn í passlega bita og raðið í eldfast mót. Kryddið með smá arómati og nýmuldum svörtum pipar. Setjið pestó, rjóma, rjómaost og fiskitening í pott og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti og pipar og hellið svo sósunni yfir fiskinn. Eldið við 175° í 20-25 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir