Heilsteiktur kjúklingur með rjómasoðsósu

Þessi réttur hefur verið í uppáhaldi hjá minni stórfjölskyldu áratugum saman. Afi á heiðurinn af þessari uppskrift, sem hann bjó til fyrir lifandis löngu og er alltaf kallaður „afakjúklingur“ af öllum í fjölskyldunni. Afi og amma buðu okkur alltaf til sín í þennan rétt í annan í jólum og ég hlakkaði alltaf meira til þess heldur en gjafanna þegar ég var barn, svo góður er rétturinn. Afi gaf aldrei uppskriftina en ég vissi nokkurn veginn hver innihaldsefnin eru og lék þetta eftir fyrir nokkrum árum og hef boðið uppá þetta í óteljandi mörgum matarboðum, alltaf við rífandi lukku matargesta. Þessi réttur er minn go-to réttur þegar við fáum gesti í mat og mig langar til þess að slá rækilega í gegn og hann klikkar aldrei. Rétturinn er tiltölulega einfaldur í gerð og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Svo er hálfgerð skylda að bera réttinn fram með djúpsteiktum frönskum, hrísgrjónum og ávaxtasalati. Ef ég er í miklu stuði, þá hendi ég í þetta snickerssalat, sem smellpassar við herlegheitin.

Afakjúklingur:

  • 2 heilir kjúklingar, skolaðir og þerraðir
  • 1 pakki karrísósa frá TORO
  • 1 tsk karrí krydd
  • 1.5 msk Bezt á kjúklinginn kryddblanda
  • 150 g smjör, brætt
  • 1-2 lítrar vatn


Hitið ofn í 150°. Blandið saman karrísósu dufti, karrí og Bezt á kjúklinginn. Setjið kjúklingana á ofngrind og þerrið þá vel. Nuddið kryddblöndunni á allar hliðar kjúklinganna. Hellið 2 lítrum af vatni í ofnskúffu og setjið neðst í bökunarofn. Setjið grindina með kjúklingunum fyrir ofan skúffuna með vatninu og eldið í 1-2 klukkutíma. Þegar eldunartíminn er rúmlega hálfnaður er soðinu hellt úr skúffunni yfir í pott í gegnum sigti. Þegar 20 mínútur eru eftir af eldunartímanum er bræddu smjöri hellt yfir kjúklingana og hitinn hækkaður í 200°. Að loknum 20 mínútum er kjúklingurinn tekinn úr ofninum. Látið hann standa á meðan sósan er gerð og meðlæti útbúið.

Sósa og annað meðlæti:

  • Soðið af kjúklingnum
  • 2 kjúklingateningar
  • 5 dl rjómi
  • 4.5 tsk karrí
  • 4.5 tsk Bezt á kjúklinginn kryddblanda
  • Maizena til að þykkja
  • Sósulitur (má sleppa)
  • Franskar
  • Hrísgrjón
  • Snickerssalat (eða annað ávaxtasalat)


Setjið soðið og kjúklingateninga í rúmgóðan pott og látið suðuna koma upp. Bætið næst rjóma og kryddum saman við og látið sjóða í 10-15 mínútur. Þykkið með maizena og látið malla áfram á vægum hita í 10 mínútur til viðbótar. Dekkið sósuna með sósulit ef vill og smakkið til með karrí og Bezt á kjúklinginn. Berið fram með kjúklingnum, frönskum (helst djúpsteiktum), hrísgrjónum og góðu ávaxtasalati.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir