Louisiana kjúklinga pasta

Fyrir skömmu eldaði ég Lousiana pasta með stökkum kjúklingi eftir að hafa haft augastað á uppskriftinni í nokkrar vikur. Ég bauð uppá hann í matarboði og hann vakti rífandi lukku, svo það var svolítið vandræðalegt að þurfa að viðurkenna að mér fannst rétturinn bara alls ekki góður. Satt að segja fannst mér stökki kjúklingurinn alveg frábær en mér fannst pastað sjálft hreinlega bragðvont. Matargestirnir skildu ekkert í mér að finnast þetta ekki gott og sögðu að rétturinn yrði að fara beinustu leið á bloggið svo aðrir gætu prófað. Ég tók afganginn með mér í vinnuna og bauð vinnufélögum að smakka og þeim fannst rétturinn alveg hreint frábær og skildu heldur ekkert í mér að finnast þetta vont. En þar sem bókstaflega öllum nema mér fannst rétturinn góður, þá ákvað ég að setja uppskriftina inn svo aðrir geti dæmt.

Louisiana pasta með stökkum kjúklingi:

Cajun rjómasósa:

  • 1 tsk rauðar chili flögur
  • 1 tsk cajun krydd
  • 1⁄2 tsk salt
  • 1 tsk nýmulinn svartur pipar
  • 2 bollar rjómi
  • 1 bolli kjúklingasoð
  • 1 msk kornsterkja
  • 1 bolli ferskrifinn parmesan ostur

Blandið öllu vel saman í skál og setjið til hliðar. Hitið vel saltað vatn í potti og sjóðið pastað skv leiðbeiningum á pakka en styttið suðutímann um 1 mínútu. Látið renna af pastanu þegar það er tilbúið en ekki skola það.

Stökkur parmesan kjúklingur:

  • 3-4 kjúklingabringur, skornar í tvennt þversum
  • 1⁄2 bolli hveiti
  • 1 1⁄2 bolli brauðrasp
  • 1 bolli rifinn parmesan ostur
  • 1⁄2 tsk salt
  • 1⁄2 tsk nýmulinn svartur pipar
  • 3 egg, upphærð
  • 4 msk grænmetisolía

Blandið saman hveiti, brauðraspi, parmesan osti, salti og pipar í skál. Setjið upphærð egg í aðra skál. Veltið kjúklingnum upp úr raspblöndunni, síðan upphærðu eggjunum og svo aftur upp úr raspblöndunni. Hitið grænmetisolíu á pönnu og steikið kjúklinginn í 3-5 mínútur á hvorri hlið. Færið kjúklinginn yfir á skurðarbretti og skerið í passlega strimla.


Pasta:

  • 450 g farfalle pasta
  • 2 msk smjör
  • 1 rauð paprika, strimluð
  • 1 gul paprika, strimluð
  • 1 rauðlaukur, strimlaður
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 3 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 1⁄4 bolli steinselja eða graslaukur (má sleppa)

Hitið 2 msk af smjöri á sömu pönnu og kjúklingurinn var steiktur á. Þegar smjörið er byrjað að bubbla er paprikum, rauðlauk, sveppum og hvítlauk bætt á pönnuna og steikið í 3-5 mínútur. Bætið pastanu og sósunni á pönnuna og blandið öllu mjög vel saman. Látið sósuna malla í 3-5 mínútur eða þar til hún er orðin passlega þykk. Raðið kjúklingum yfir pastaréttinn og stráið saxaðri steinselju/graslauk yfir réttinn ef þess er óskað. Berið strax fram. Rífið parmesan yfir réttinn ef þess er óskað.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir