Skinkupasta með kjúklingi og brokkolí

Þetta skinkupasta bjó ég til um helgina og það sló svo svakalega í gegn að mér var sagt að uppskriftin yrði að fara beinustu leið á bloggið. Ég er ekki ósammála, þessi pastaréttur var svo ótrúlega bragðgóður, silkimjúkur og djúsí að ég bara ætlaði ekki að geta hætt að borða þegar ég byrjaði. Maðurinn minn, sem er ekki sérlega hrifinn af pasta yfirleitt, sagði að rétturinn væri alveg stórgóður og börnunum sem var boðið uppá pastað voru gjörsamlega sólgin í það. Stórgóð máltíð sem tekur enga stund að töfra fram.

Skinkupasta með kjúklingi og brokkolí:

  • 500 g pasta
  • Bezt á flest kryddblanda
  • 800 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 250 g skinka, skorin í bita
  • 1 brokkólíhaus, skorinn í passleg „blóm“
  • 1 dós Campbell‘s kjúklingasúpa
  • 1 box beikonsmurostur
  • 200 ml kjúklingasoð
  • 400 ml matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 1⁄2 grænmetisteningur
  • 1⁄2 kjúklingateningur
  • Nýmulinn svartur pipar eftir smekk


Hitið olíu eða smjör á pönnu á miðlungsháum hita. Þegar olían hefur hitnað er kjúklingurinn settur á pönnuna og steikur í 6-8 mínútur. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann kryddaður með Bezt á flest kryddblöndu eftir smekk. Bætið skinku og brokkolí á pönnuna og steikið áfram í 2-3 mínútur. Bætið Campbell‘s sveppasúpu, beikonsmurosti, kjúklingasoði, mjólk, grænmetistening og kjúklingatening á pönnuna og blandið öllu vel saman. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann á lágan og látið sósuna malla á meðan pasta er soðið eftir leiðbeiningum á pakka. Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af og pastað sett á pönnuna. Blandið öllu vel saman og látið malla í 2 mínútur. Berið fram með góðu brauði ef þess er óskað.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir