Fyrir skömmu var ég svo heppin að fá að gjöf osta og allskonar gúmmelaði frá Gott í matinn og fór auðvitað strax að „brainstorma“ hvað ég gæti notað þessar vörur í. Ég hef alltaf verið hrifin af ofnbökuðum fiskréttum sem innihalda osta, svo það kom eiginlega ekki annað til greina en að setja saman fiskrétt úr einhverjum ostanna. Ég endaði á að setja saman fiskrétt úr paprikuosti og rjómaosti með grillaðri papriku og chili og útkoman var stórgóð. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé besti fiskréttur sem þið munið smakka en það geta ekki alltaf verið jól. Þessi réttur er fljótlegur og bragðgóður og hentar því vel í hversdagsleikanum, þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnunni og langar bara í eitthvað fljótlegt en gott.
Ofnbakaður fiskur með paprikuosti og rjómaosti með grillaðri papriku og chili:
- 800 g þorskur (eða annar hvítur fiskur, skorinn í passlega bita
- 2 tsk nýmulinn svartur pipar
- 1 askja rjómaostur með grillaðri papriku og chili
- 1 paprikuostur, rifinn
- 2 dl matreiðslurjómi eða mjólk
- 2-3 handfylli rifinn ostur
- 1 grænmetisteningur
- Salt
- Mulið svart Doritos
Hitið ofn í 190°. Raðið þorskinum í eldfast mót og kryddið með salti. Setjið matreiðslurjóma, rjómaost, grænmetistening, paprikuost, pipar og rifinn ost í pott og látið allt bráðna saman. Hellið þessu yfir þorskinn og eldið í ofni í 15-20 mínútur. Takið réttinn út, raðið muldu Doritos yfir hann og bakið í 5 mínútur til viðbótar. Berið fram með hrísgrjónum.