Tómatsúpa og grillaðar ostasamlokur

Ég elska súpur og þá sérstaklega á haustin þegar það er farið að kólna og dimma. Það er eitthvað svo hlýlegt og notalegt við súpur, bæði að standa yfir þeim og smakka þær til, sem og að bera þær fram. Gott brauð setur svo endanlega punktinn yfir i-ið. Þessa tómatsúpu eldaði ég í fyrsta sinn fyrir nokkrum vikum og okkur fannst hún svo góð að ég er búin að elda hana nokkrum sinnum á stuttum tíma, alltaf við mikla lukku. Með grilluðum ostasamlokum úr súrdeigsbrauði varð máltíðin alveg hreint dásamleg. Prófið!

Tómatsúpa (uppskriftin er fyrir tvo):

  • 1.5 msk smjör
  • 1 laukur, hakkaður
  • 1 sóló hvítlaukur, pressaður eða fínhakkaður
  • Smá rauðar chili flögur
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 2 dl kjúklingasoð eða vatn
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1 dl rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Hvítur pipar eftir smekk
  • Smá þeyttur rjómi (má sleppa)
  • Steinselja, fínhökkuð (má sleppa)


Bræðið smjörið í potti á miðlungsháum hita. Steikið laukinn þangað til glær, það tekur um 6 mínútur. Bætið hvítlauknum og chili flögum saman við og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Bætið tómötum, tómatpúrru, grænmetistening og kjúklingatening saman við og látið suðuna koma upp. Látið súpuna malla í 15 mínútur. Að þeim liðnum er súpan sett í blandara og mixuð þangað til alveg slétt (það er upplagt að græja grillaðar ostasamlokur á meðan). Færið sósuna aftur í pottinn og látið hana hitna aftur. Þegar súpan er orðin passlega heit er hún tekin af hitanum og rjómanum hrært saman við hana. Berið strax fram með smá þeyttum rjóma, smátt saxaðri steinselju og grilluðum ostasamlokum með bragðmiklum osti.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir