Kjötbollur og dásamleg brúnsósa

Kjötbollur með rjómasósu er einn af mínum uppáhalds hversdagsmat og ég elda yfirleitt kjötbollur í hverri viku. Það er allur gangur á hvaða uppskrift verður fyrir valinu að hverju sinni en þessi uppskrift er í miklu uppáhaldi, enda er hún alveg æðislega góð. Fyrir skömmu kom ég heim úr vinnunni og langaði svakalega í þessar kjötbollur og ákvað að elda þær en í ljós kom að ég átti ekki hráefnin í sósuna. Ég nennti ómögulega út í búð og ákvað að gera kjötbollurnar og redda sósumálunum á annan hátt. Útkoman var æðislega góð og verður klárlega oftar á borðum hjá mér.

Kjötbollur með fetaosti og brúnsósa (breytt uppskrift frá Ljúfmeti):

  • 500 g nautahakk
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 tsk oregano
  • 1 egg
  • Salt og pipar
  • Fetaostur í kryddlegi, olían látin renna af
  • Smjör til að steikingar

Hitið ofn í 150°. Blandið öllum hráefnunum saman og mótið kjötbollur. Steikið upp úr smjöri á meðalháum hita þangað til bollurnar eru komnar með fallega steikingarhúð. Setjið í ofn á meðan sósan er útbúin.

Dásamlega góð brúnsósa:

  • 2 msk smjör
  • 2 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 1 bréf brunsósa frá TORO
  • 1 nautateningur
  • 1/2 tsk hvítur pipar
  • 1-2 msk rifsberjahlaup


Bræðið 2 msk af smjöri á pönnunni sem bollurnar voru steiktar á. Þegar smjörið er bráðnað er 2 dl af vatni hellt yfir og suðan látin koma upp. Hellið steikarsoðinu í pott í gegnum sigti. Bætið 1 bréfi af brúnsósu saman við og blandið vel saman. Bætið rjóma, mjólk, nautatening, rifsberjahlaupi og hvítum pipar í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sósuna malla í nokkrar mínútur, þangað til hún er orðin passlega þykk. Smakkið til með rifsberjahlaupi og hvítum pipar.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir