Í fyrra rakst ég á uppskrift af hægelduðum french onion kjúklingi á Facebook og fannst uppskriftin svo girnileg að ég eldaði réttinn stuttu seinna og hann vakti mikla lukku hjá okkur, svo mikla að mér var sagt að rétturinn yrði að fara beint á bloggið svo fleiri gætu prófað. En rétturinn birtist ekki fyrr en núna í dag því ég týndi uppskriftinni og mundi ekki hana ekki nógu vel til þess að geta sett hana inn en ég ákvað að halda eftir myndunum af réttinum ef uppskriftin skyldi nú finnast fyrir rest, svo hér kemur hún, mjög seint en það er víst betra en aldrei, a.m.k í þessu tilfelli. Við bárum réttinn fram með rifsberjahlaupi en það er eflaust prýðilegt að hafa kartöflumús með.
Hægeldaður French Onion kjúklingur:
- 4 kjúklingabringur, skornar í þrennt á lengdina
- Bezt á flest kryddblanda
- 4 laukar, skornir þunnt
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 2 bollar nautasoð
- 1/2 nautateningur
- 1 tsk þurrkað timian
- 2 msk Worcestershire sósa
- Salt og pipar
- 1 bolli Gruyere ostur
- Fersk steinselja, fínhökkuð
- Smjör til steikingar
Nuddið kjúklingabringurnar með Bezt á flest kryddblöndu. Bræðið smjör á rúmgóðri pönnu og brúnið kjúklingabringurnar á öllum hliðum. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Bræðið meira smjör á pönnunni og steikið lauk og hvítlauk þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Setjið nautasoð, Worcestershire sósu, nautatening og timian á pönnuna og blandið öllu vel saman. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið kjúklinginn á pönnuna, lækkið hitann á lágan (ég nota stillingu 3 af 9) og setjið lok á pönnuna. Látið þetta malla í tvo klukkutíma. Þá er ostinum stráð yfir réttinn og lokið sett aftur á pönnuna þar til osturinn er bráðnaður. Stráið steinselju yfir réttinn áður en hann er borinn fram.


