Quesadillas með mexíkó ostasósu

Quesadillas eru í miklu uppáhaldi hjá mér og þessi eru ekki af verri endanum. Þær eru fylltar með kjúklingi, beikoni og ostum og síðan toppaðar með mexíkó ostasósu sem setur endanlega punktinn yfir i-ð. Satt að segja urðu þessar quesadillas til í ísskápa tiltekt hjá mér og ég átti ekki von á að útkoman yrði svona svakalega góð. Það var skyndiákvörðun hjá mér að gera mexíkó ostasósu til þess að bera fram með þeim og ég sá heldur betur ekki eftir því, þetta fór allt æðislega vel saman. Ekta föstudagsmatur.

Quesadillas með mexíkó ostasósu

  • 8 tortillakökur
  • 4 kjúklingabringur
  • 250 g beikon
  • 1 bréf fajita krydd
  • ½ rauð paprika, sneidd
  • ½ rauðlaukur, sneiddur
  • Rjómaostur
  • Rifinn ostur, magn og tegund eftir smekk
  • Bragðdauf olía til steikingar

Skerið kjúklingabringurnar í litla bita. Steikið beikon á pönnu þar til stökkt. Látið renna af því á eldhúspappír og skerið það svo í strimla. Hitið smá olíu á sömu pönnu og steikið kjúklinginn. Þegar kjúklingurinn er kominn með gylltan lit er hann kryddaður með fajita kryddi og steikt áfram. Bætið rauðlauk og papriku á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Setjið beikon á pönnuna og blandið öllu vel saman. Smyrjið tortillakökur með rjómaosti, setjið kjúklingablöndu á tortillakökuna og rifinn ost yfir. Lokið tortillunni þannig að hún verði að hálfmána. Hitið olíu á pönnu og steikið quesadillurnar þar til þær eru fallega gylltar og osturinn bráðnaður. Berið fram með mexíkóostassósu, taco sósu, nachos (ég nota svart Doritos) og góðu salati.

Mexíkóostasósa

  • 1 mexíkóostur, rifinn
  • 3 dl rjómi
  • 1 tsk sojasósa
  • Salt

Öllu er blandað saman í potti og látið sjóða saman þar til osturinn er bráðnaður.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir