Í vetur eldaði ég indverskan-kínverskan kjúklingrétt sem kom mjög skemmtilega á óvart. Uppskriftina fann ég á Pinterest og þar sem við elskum bæði indverskan og kínverskan mat, þá kom ekki annað til greina en að prófa réttinn sem fyrst. Rétturinn er mjög óvenjulegur á bragðið og því frekar erfitt að lýsa honum, en hann sameinar brögð úr kínverskri og indverskri eldamennsku og samsetningin er ólík því sem maður er vanur í asískum mat en alveg stórkostlega góð samt. Ég bar réttinn fram með hrísgrjónum og sojasósu og við vorum alsæl með þetta og rétturinn kláraðist upp til agna. Mjög gott og vert að prófa.
Indian-Chinese Chilli Chicken:
Marinering:
- 700 g kjúklingabringur, skornar í 2 cm bita
- ½ laukur
- 6 hvítlauksrif
- 6 sneiðar af fersku engifer
- ½ msk chiliduft
- 1 ½ msk sojasósa
- 3 msk vatn
Setjið kjúkling, chiliduft, vatn og sojasósu í skál. Setjið lauk, hvítlauk og engifer í matvinnsluvél og vinnið saman í mauk. Setjið tvær msk af maukinu í skálina með kjúklingnum en restina af maukinu í ílát með loki og geymið í ísskáp þar til rétturinn er settur saman. Blandið öllu í marineringunni vel saman og geymið í loftþéttu íláti í ísskáp í sólarhring.
Sósan:
- 1 ½ msk dökk sojasósa
- 2 ½ msk ostrusósa
- 1 msk hrísgrjónaedik
- 1 msk hunang
- 2 tsk kornsterkja blönduð saman við 4 tsk af vatni
- 1 ½ msk chili duft
- ½ bolli vatn
Blandið saman sojasósu, ostrusósu, ediki, hunangi, chili dufti og ½ bolla af vatni saman í skál. Blandið saman 2 tsk af kornsterkju og 4 tsk af vatni og blandið því saman við sósuna og setjið hana til hliðar.
Restin af réttinum:
- 7 msk kornsterkja
- 1 græn paprika, skorin í bita
- 1 laukur, skorinn í bita
- 6 stk grænn chili pipar, skorinn í sneiðar
- 3 msk bragðdauf olía til steikingar
- Restin af lauk-hvítlauks-engifer maukinu
Blandið kornsterkjunni saman við marineraða kjúklinginn. Hitið olíu á pönnu þar til hún er orðin mjög heit. Steikið þá kjúklinginn í nokkrum skömmtum á öllum hliðum þar til hann er eldaður í gegn. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Setjið lauk-hvítlauks-engifer blönduna á pönnuna og steikið þar til hún hefur brúnast vel. Bætið lauknum, paprikunni og chili piparnum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Hrærið aðeins í sósunni (kornsterkjan á það til að setjast á botninn) og hellið henni yfir grænmetið. Látið þetta malla aðeins þar til sósan hefur þykknað, hrærið vel í þessu á meðan. Slökkvið undir pönnunni og setjið kjúklinginn á hana. Blandið öllu vel saman. Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.



