Lúða í Tikka Masala

Þau sem líta reglulega hér inn hafa eflaust tekið eftir því að ég er mjög hrifin af lúðu. Hún er uppáhalds fiskurinn minn og gerir alla rétti betri sem hún er notuð í. Þessi lúðupanna er uppáhaldsmaturinn okkar og lúða í súrsætri sósu fylgir henni fast á hæla, báðir réttirnir eru algjört lostæti og ef þið hafið ekki prófað, þá mæli ég eindregið með að drífa í því. Við elskum líka indverskan mat og Tikka Masala er okkar go-to réttur þegar valið fellur á indverskan. Ég fékk því þá hugmynd að það væri eflaust frábært að gera lúðu í Tikka Masala og reyndi að finna uppskriftir af slíku á veraldarvefnum en sá enga sem mér leist nógu vel á, svo ég endaði á að setja saman uppskrift úr nokkrum uppskriftum og útkoman var alveg brjálæðislega góð. Ég bar réttinn fram með heimagerðu naan brauði og hrísgrjónum og við vorum alsæl með þetta.

Tikka Masala með lúðu

Marinering:

  • 1 kg lúða, skorin í 2 cm bita
  • 2 tsk garam masala
  • 2 tsk kóríander krydd
  • 2 tsk cumin
  • 1 tsk chili duft
  • 1 tsk cayenne pipar
  • ½ tsk túrmerik
  • 10 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • Safi af 2 sítrónum
  • 1 lítil dolla tómatpúrra
  • 180 ml grísk jógúrt

Blandið öllu saman í skál og geymið í ísskáp í minnst 6 klukkutíma en helst í sólarhring.

Tikka Masala:

  • 2 msk bragðdauf olía
  • 2 msk smjör
  • 2 laukar, fínhakkaðir
  • 1 ½ tsk garam masala
  • 1 ½ tsk cumin
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 tsk papriku duft
  • 300 ml tómat purée
  • 100 ml tómatsósa
  • 250 ml kjúklingasoð
  • 1 tsk salt
  • 1 ¼ bolli rjómi
  • 1 tsk púðursykur

Hitið 2 msk af olíu á pönnu og steikið lúðubitana þar til þeir eru komnir með fallega steikingarhúð. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Hitið 2 msk af smjöri á sömu pönnu og steikið laukinn þar til brúnaður. Setjið öll kryddin á pönnuna og steikið í 20 sekúndur. Bætið tómatpurée, tómatsósu og salti á pönnuna og blandið öllu vel saman. Látið þetta malla í 10-15 mínútur. Hrærið reglulega í þessu á meðan. Bætið næst rjóma og púðursykri á pönnuna og blandið vel saman. Raðið lúðubitunum á pönnuna og látið malla í sósunni í 8-10 mínútur. Þynnið sósuna með vatni ef ykkur finnst þurfa. Berið fram með hrísgrjónum og naan brauði (helst heimagerðu, ég notaði þessa uppskrift).

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir