Nú þegar það er farið að hausta finn ég að mig er farið að langa í haustlegri og hlýlegri mat. Matarvenjur mínar breytast nefnilega eftir árstíðum og vikudögum, ef út í það er farið. Á sumrin langar mig yfirleitt í léttan og ferskan mat og kjötbollur með rjómasósu, súpur, gúllas, kjöt í karrí og lambalæri finnst mér ekki vera sumarmatur, svipað og mér finnst fiskur ekki vera föstudags – og sunnudagsmatur og kjöt ekki mánudagsmatur. Maðurinn minn segir að þetta sé óttaleg sérviska í mér en svona er þetta bara og þessu verður ekki breytt. Þessi kjúklingasúpa með makkarónum og kartöflum er alveg einstaklega ljúf á bragðið og smellpassar þegar það er byrjað að kólna úti. Systir mín gaf mér uppskriftina og sagði að súpan sé í miklu uppáhaldi á hennar heimili og við tökum heldur betur undir þar, dásamlega góð súpa sem yljar líkama og sál. Ef þið viljið hafa meira pasta eða nota aðra tegund, þá mæli ég með að sjóða pastað sér og bera fram með súpunni, hún breytist nefnilega í pastarétt ef það er sett of mikið pasta.
Kjúklingasúpa með makkarónum og kartöflum:
- 2 kjúklingabringur
- 2 tsk reykt paprikuduft
- 2 tsk ítölsk hvítlauksblanda
- 2 tsk laukduft
- 2 tsk hvítlauksduft
- 2 tsk salt
- 2 tsk nýmulinn svartur pipar
- 1 tsk cayenne pipar
- 1/2 tsk rauðar chili flögur
- 10 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 1/2 bolli gulrætur, skornar í bita
- 1 1/2 bolli sellerí, skorið í bita
- 1 1/2 bolli laukur, skorinn í bita
- 3 bollar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
- 3 msk smjör
- 3 msk ólífuolía
- 6 bollar kjúklingasoð
- 1 kjúklingateningur
- 1 grænmetisteningur
- 2 bollar rjómi
- 1 lárviðarlauf
- 1 msk þurrkað timian
- 2 msk ferskt timian, fínhakkað
- 3 msk steinselja, fínhökkuð
- Safi af 1 sítrónu
- 200 g makkarónu pasta
Bræðið 1 msk ólífuolíu og 1 msk af smjöri saman í rúmgóðum potti. Steikið kjúklingabringurnar á báðum hliðum þar til fallega gylltar. Blandið öllum þurru kryddunum saman í skál. Takið kjúklinginn úr pottinum og setjið til hliðar. Hitið 2 msk ólífuolíu og 2 msk smjör í pottinum. Þegar blandan er orðin mjög heit eru gulrætur, sellerí og laukur sett í pottinn og kryddað með kryddblöndunni. Látið steikjast í 7-9 mínútur, bætið þá hvítlauknum í pottinn, blandið öllu vel saman og steikið í 2 mínútur í viðbót. Setjið kjúklingasoð, kartöflur, lárviðarlauf, kjúklingatening, grænmetistening og kjúklingabringurnar í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið þetta malla í 30 mínútur, takið þá lárviðarlaufið og kjúklingabringurnar úr pottinum. Tætið kjúklingabringurnar með handþeytara eða í hrærivél. Bætið kjúklingnum, makkarónum, fersku timian, ferskri steinselju, sítrónusafa og rjóma í pottinn og látið sjóða í 10 mínútur til viðbótar. Berið fram með ferskrifnum parmesan, nýmuldum svörtum pipar og rauðum chiliflögum.


