Birria Tacos og nautasoð

Þessi Birria Tacos eru alveg hreint frábær. Uppskriftina fékk ég hjá systur minni og eldaði núna um helgina. Okkur fannst þetta heppnast mjög vel og tímanum sem fer í matargerðina er klárlega vel varið. Ég ætla ekki að halda því fram að rétturinn sé hristur fram úr erminni, enda er hann það alls ekki, satt að segja var heilmikið maus að koma réttinum saman. Það er þó algjörlega ómaksins virði að standa í þessu, enda uppsker maður hreinan draum að verkinu loknu. Þessi tacos eru svo bragðmikil og nautasoðið sem þeim er dýft í setur punktinn yfir i-ið. Uppskriftina fékk ég hjá systur minni sem setti hana saman úr nokkrum öðrum uppskriftum. Ég setti gruyere ost í helminginn af taco-unum og rifinn cheddar ost í hinn helminginn af þeim, mér fannst bæði koma mjög vel út. Notið bara þann ost sem ykkur finnst góður.

Birria Tacos og nautasoð:

  • 1 kg nautakjöt í stórum klump, ég notaði chuck roast
  • 12 bollar vatn
  • 6 gulrætur
  • 2 laukar
  • 2 hvítlaukar
  • 1 dós (320 g) tómatpurée
  • 6 msk tómatsósa
  • 10 lárviðarlauf
  • 10 stk Guajillo piprar (fást í Fiska)
  • 4 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur
  • 1 msk salt
  • Maís tortillur (fást í Fiska)
  • Rifinn ostur, magn og tegund eftir smekk
  • PAM sprey

Hitið smá ólífuolíu í rúmgóðum potti. Brúnið kjötklumpinn á öllum hliðum. Setjið vatn, hvítlauk, lauk, gulrætur, lárviðarlauf, Guajillo pipar, tómatpuré, tómatsósu, kjúklingakraft og salt í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið þetta sjóða í 2 tíma, að þeim loknum eru piprarnir veiddir upp úr pottinum og maukaðir í blandara. Maukið er sett í pottinn og allt látið sjóða saman í 5-6 klukkutíma í viðbót. Kjötið er tekið úr pottinum og tætt í sundur með tveim göfflum. Helliðs soðinu í skál í gegnum sigti. Hendið því sem er eftir í sigtinu. Hitið pönnu og spreyið með PAM spreyi. Dýfið maískökunum í nautasoðið og steikið á á pönnunni. Setjið rifinn ost og kjöt á maískökunar og lokið þeim með töng. Steikið þar til tacoin eru komin með fallega steikingarhúð. Berið fram með nautasoðinu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir